
Karen Kjartansdóttir almannatengill og fyrrverandi fjölmiðlakona varar við því sem hún kallar nýstalíníska og fasíska hugsun í pólitískri umræðu samtímans. Í færslu á samfélagsmiðlum segir hún að fasismi snúist ekki um hefðbundna hægri stefnu um lög og reglu, heldur um afnám laga í nafni valdsins sjálfs.
„Fasismi er ekki hægri stefna um lög og reglu. Hann er afnám laga í nafni hugmyndar foringjans og ríkisvaldsins. Og þeir sem fagna því, sama hvað þeir kalla sig, eru ekki að verja samfélagið. Þeir eru að verja vald sem hefur þegar ákveðið að staðreyndir skipti ekki lengur máli,“ skrifar Karen.
Hún segir að í stalínískri og fasískri hugsun skipti ekki lengur máli hvað gerist í raun, heldur hver hafi vald til að skilgreina atburðina. Gögn, vitnisburður og myndskeið verði aukaatriði nema þau styðji opinbera frásögn.
„Í stalínískri og fasískri hugsun skiptir ekki máli hvað gerðist í raun. Það sem skiptir máli er hver hefur vald til að skilgreina atburðinn. Myndskeið, vitni og gögn eru ekki afsönnun heldur aukaatriði, gild aðeins ef þau styðja frásögnina,“ segir hún og er þá að tala um það þegar bandarísk kona, Renee Nicole Good, var skotin til bana af fulltrúa ICE í Minneapolis í gær en atvikið náðist á myndband.
Karen tekur dæmi þar sem ríkisvaldið fullyrði að kona hafi ekið yfir liðsmenn ICE, þrátt fyrir að myndskeið sýni annað.
„Myndskeið sýnir að það gerðist ekki. Niðurstaðan er samt ekki að ríkisvaldið hafi rangt fyrir sér, heldur að myndskeiðið skipti ekki máli. Staðreyndir lýsa ekki lengur veruleikanum. Veruleikinn er skilgreindur ofan frá,“ skrifar hún.
Að hennar mati er þetta ekki lygi í hefðbundnum skilningi heldur hluti af valdhyggju þar sem hollusta við frásögnina er mælikvarði á hvar borgarinn standi.
„Lygin er ekki bilun í kerfinu – hún er prófsteinn á hollustu. Sá sem samþykkir frásögnina þrátt fyrir eigin augu sýnir að hann sé „réttu megin“. Sá sem trúir því sem hann sér er orðinn andófsmaður,“ segir Karen.
Hún tengir þessa þróun við ummæli JD Vance, varaforseta Bandaríkjanna, um að Donald Trump sé tilbúinn að ganga „eins langt og nauðsynlegt er“ gagnvart Grænlandi.
„Vance rökstyður öryggishlutverk Grænlands í loftvörnum, en sleppir algjörlega að rökstyðja hvers vegna það leiði til þess að Bandaríkin verði að fara með yfirráð. Það bil er ekki fyllt með gögnum, heldur með valdi,“ skrifar hún og bætir við að Danmörk sé sett í stöðu sakbornings með ásökunum um að hafa „ekki staðið sig“ og vera „föst í fortíðinni“.
Að lokum segir Karen að í slíkri hugsun hverfi hefðbundin hægri–vinstri skipting og í staðinn taki við valdhyggja þar sem orð leiðtogans séu lög.
„Þarna hverfur hægri–vinstri aðgreiningin. Það sem tekur við er fasísk hugsun: leiðtoginn hefur rétt fyrir sér af því hann er leiðtoginn. Ofbeldið er réttmætt af því það þjónar „góðum tilgangi“. Og sá sem spyr er ekki gagnrýninn borgari, heldur ógn,“ skrifar hún.
„Fasismi er afnám laga í nafni orða foringja ríkisins. Nýstalínistarnir þurfa ekki lengur að færa rök. Reiði og ásökun duga. Þau koma í stað sönnunar, umræðu og ábyrgðar.“

Komment