
Magnús Finnsson, fyrrverandi blaðamaður, fréttastjóri og fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins, lést í gær, 21. apríl, á Hrafnistu í Fossvogi, 85 ára að aldri.
Hann fæddist í Reykjavík 8. apríl 1940. Foreldrar hans voru Finnur Magnús Einarsson, bóksali og kennari, og Guðrún M. Einarson húsfreyja. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1963, hóf Magnús nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og starfaði jafnframt við Morgunblaðið, þar sem hann fjallaði meðal annars um útfærslu fiskveiðilögsögunnar og verkalýðsmál.
Magnús starfaði hjá Morgunblaðinu í rúm 40 ár, þar til hann lét af störfum árið 2006. Hann tók við starfi fréttastjóra árið 1981, ásamt Freysteini Jóhannssyni og Sigtryggi Sigtryggssyni, og varð síðar fulltrúi ritstjóra, sem hann gegndi allt til starfsloka.
Tengsl Magnúsar við Morgunblaðið voru djúp, þar sem móðurafi hans, Magnús Einarsson dýralæknir, var meðal stofnenda Árvakurs hf., útgefanda blaðsins, og sat sem stjórnarformaður félagsins þar til hann lést árið 1927.
Magnús var virkur í starfi Blaðamannafélags Íslands og gegndi þar margvíslegum trúnaðarstörfum. Hann sat um árabil í stjórn samninganefndar félagsins og var formaður þess eitt ár. Á þeim tíma lagði hann sig meðal annars fram um lífeyrismál og eflingu félagsins með því að tryggja skrifstofuaðstöðu og orlofshúsnæði.
Eiginkona Magnúsar er Bryndís Brynjólfsdóttir, fædd 1940. Börn þeirra eru Guðrún Ásta (f. 1967), sem starfar við fiskútflutning, Finnur (f. 1973), lögmaður, og Sigurður Örn (f. 1976), deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg. Sonur Bryndísar er Brynjólfur (f. 1961).
Komment