
Strandveiðimaðurinn sem lést í gær þegar bátur hans sökk nálægt Patreksfirði hét Magnús Þór Hafsteinsson. Hann var fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins frá 2003 til 2007 og var formaður þingflokks flokksins frá 2004 til 2007.
Magnús gerði út á bátnum Orminum langa AK-64 frá Patreksfirði og var 61 árs gamall.
Auk þess að vera þingmaður starfaði Magnús sem blaðamaður og kennari en hann var menntaður í fiskeldi- og rekstrarfræðum, sem hann lærði í Noregi, og starfaði einnig í þeim geira lengi meðal annars sem rannsóknamaður við Veiðimálastofnun og hafrannsóknastofnanir Íslands og Noregs í tæpan áratug.
Á Alþingi sat Magnús í sjávarútvegsnefnd 2003–2007, félagsmálanefnd 2005–2007 og var hluti af Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2003–2005.
Undanfarin ár hefur Magnús gefið út þýðingar bóka meðal annars eftir David Attenborough og Max Hastings.
Slysið er til rannsóknar hjá Lögreglunni á Vestfjörðum og einnig á borði Rannsóknarnefndar samgönguslysa.
Magnús Þór lætur eftir sig fjórar fullorðnar dætur.
Komment