
Margrét Halla Hansdóttir Löf játar að hafa beitt foreldra sína ofbeldi samkvæmt því sem kemur fram í nýjasta blaði Heimildarinnar.
Samkvæmt blaðinu neitar hún hins vegar að hafa átt aðild að andláti föður síns en hún situr í gæsluvarðhaldi og er með stöðu sakbornings í því máli. Rannsókn lögreglu á andláti Hans Roland Löf er í fullum gangi en hann lést 11. apríl eftir atvik sem kom upp á heimili hans í Súlunesi í Garðabæ.
Margrét heldur því fram að hún hafi ekki verið nærri föður sínum þegar hann hneig niður en dánarorsök liggur ekki fyrir.
Að sögn lögreglu er mikil vinna í gangi varðandi gagnaöflun og fleira í þeim dúr. Er það gert til að fá skýra mynd af andláti Hans.
Í viðtali við Heimildina sögðu tveir hestamenn að þeir hafi orðið vitni að ofbeldi Margrétar í garð foreldra sinna. Þannig lýsti einn sjónarvottur því að hann hefði orðið vitni að undarlegum atburðum inni í bifreið. Móðir konunnar sat þar og virtist sem dóttirin væri að reyna að faðma hana inni í bílnum. Þegar vitnið hafi nálgast bifreiðina hafi komið í ljós að dóttirin lét höggin dynja á móður sinni.
Hans Löf starfaði áður sem tannsmiður, en átti áttræðisafmæli daginn sem hann lést.
Komment