
Matvælastofnun (MAST) leiðir nú umfangsmikla aðgerð á Úthéraði þar sem allt fé sauðfjárbónda á svæðinu er smalað heim til bæjar. Markmiðið er að taka féð af bóndanum eftir ítrekaðar athugasemdir um vanrækslu á umhirðu dýranna.
Samkvæmt heimildum Austurfréttar hófst smalamennskan í gær og hélt áfram í morgun. Fjölmennt lið tekur þátt í aðgerðinni, að mestu smalar sem sendir hafa verið austur af MAST til að sinna verkinu.
Aðgerðin er sögð tengjast endurteknum kvörtunum vegna aðbúnaðar og umönnunar sauðfjár á bænum. Heimildir Austurgluggans herma að MAST hafi í vor fengið verktaka til að aðstoða við sauðburð á sama bæ.
Lögregla er einnig viðbúin á vettvangi, meðal annars vegna erfiðra samskipta bóndans við eftirlitsfólk í gegnum árin. Fyrirspurnum Austufrétta um hlut lögreglu hefur verið vísað til MAST.
Aðgerðin fer alfarið fram undir stjórn og ábyrgð Matvælastofnunar. Austurfrétt leitaði viðbragða hjá forstjóra stofnunarinnar, en ekki náðist í hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og skilaboð.
Komment