
Eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings mun boða milljarðamæringinn Leslie Wexner til skýrslutöku vegna tengsla hans við hinn látna fjármálamann og dæmda barnaníðing Jeffrey Epstein. Þetta sagði demókrataþingmaður í nefndinni í gær, samkvæmt frétt Reuters.
„Við tryggðum lykilstefnu á milljarðamæringinn Les Wexner, auk fulltrúa dánarbús Epstein,“ sagði Robert Garcia, þingmaður Demókrataflokksins, í yfirlýsingu þar sem hann þakkaði jafnframt repúblikananum Anna Paulina Luna fyrir samstarfið.
Repúblikanar hafa nauman meirihluta í fulltrúadeildinni og samþykkti nefndin stefnuna á miðvikudag.
Wexner hefur áður verið í brennidepli vegna náinna tengsla við Epstein, sem hafði um árabil umsjón með persónulegum fjármálum hans og gegndi jafnframt hlutverki trúnaðarmanns góðgerðarsjóðs Wexners. Wexner, sem er stofnandi og fyrrverandi forstjóri L Brands, móðurfélags Victoria’s Secret, hefur þó ekki verið sakaður um refsiverða háttsemi.
Stjórn Donalds Trumps forseta hefur, undir þrýstingi frá stuðningsmönnum forsetans, skipað bandaríska dómsmálaráðuneytinu að birta skjöl tengd sakamálarannsóknum á Epstein, í samræmi við gagnsæislög sem þingið hefur samþykkt en Epstein var í vinfengi við Trump á tíunda áratugnum.
Trump hafði áður reynt að halda skjölunum innsigluðum en hefur sagt að hann hafi slitið samskiptum við Epstein löngu fyrir andlát hans í fangelsi árið 2019.
Dómsmálaráðuneytið greindi frá því seint í desember að enn væru 5,2 milljónir blaðsíðna af Epstein-skjölum til yfirferðar. Epstein hafði tengsl við fjölda stjórnmálamanna og áhrifafólks úr ólíkum áttum samfélagsins.

Komment