
Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur lést á heimili sínu síðastliðinn mánudag, 75 ára gömul, eftir skammvinn veikindi. Þetta kemur fram í frétt mbl.is.
Hún fæddist í Reykjavík 12. febrúar 1950, einkadóttir Snæs Jóhannessonar bókbindara og fornbóksala frá Haga í Aðaldal (1925–2006) og Birnu Ólafsdóttur frá Ferjubakka í Öxarfirði (1917–2017), sem vann lengi hjá prentsmiðjunni Eddu.
Mjöll var ókvænt og átti ekki börn. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1970 og stundaði síðan nám í þjóðháttum og fornleifafræði við Háskólann í Uppsölum. Á námsárunum tók hún þátt í fornleifarannsóknum bæði í Herjólfsdal og í Reykjavík, auk þess sem hún vann að uppgreftri miðaldarbæjar í Túnsbergi í Noregi og bronsaldarminja í Málmey í Svíþjóð.
Eftir heimkomuna hóf hún störf við uppgröft á Stóru-Borg, einni umfangsmestu og flóknustu fornleifarannsókn Íslandssögunnar, sem stóð yfir í þrettán sumur, frá 1978 til 1990. Margir úr næstu kynslóð íslenskra fornleifafræðinga fengu þjálfun undir hennar handleiðslu.
Stofnaði Fornleifastofnun
Árið 1995 var hún meðal stofnenda Fornleifastofnunar Íslands. Hún tók þátt í rannsóknum á Hofstöðum í Mývatnssveit frá upphafi árið 1990 og kenndi við vettvangsskólann þar og síðar í Vatnsfirði frá 1997 til 2010. Þar þjálfaði hún fjölda ungra fornleifafræðinga í fræðilegum vinnubrögðum og aðferðum vettvangsstarfa.
Mjöll kom einnig að fornleifarannsóknum í Aðalstræti og í Skálholti á fyrsta áratug 21. aldar. Út komu tvö bindi bókar um uppgröftinn í Skálholti, sem hún skrifaði ásamt Gavin Lucas, árin 2022 og 2024.
Á ferli sínum tók hún þátt í fjölmörgum öðrum fornleifaverkefnum hér á landi og var ritstjóri Árbókar Hins íslenska fornleifafélags í tæp tuttugu ár. Mjöll lét djúp spor eftir sig í íslensku fræðasamfélagi með störfum sínum og árið 2020 var gefin út heiðursritið Minjaþing, sem inniheldur valdar fræðigreinar henni til heiðurs í tilefni sjötugsafmælis hennar.
Komment