
Öfgahægrihópur í Ísrael, sem nefnist Tsav 9, hefur stöðvað flutningabíla sem flytja mannúðaraðstoð til Gaza við Karem Abu Salem (Kerem Shalom) landamærastöðina.
Hópurinn greindi frá þessu í færslu á samfélagsmiðlinum X og sagðist „þessa stundina hindra för hjálparflutningabíla“ á nokkrum stöðum á leiðinni að stöðinni, sem er undir stjórn Ísraels.
Í yfirlýsingu hópsins sagði meðal annars: „Hamas brýtur samkomulagið og neitar að skila gíslum, því verður að stöðva alla aðstoð sem gerir þeim kleift að byggja sig upp á ný.“ Þá bætti hópurinn við: „Enginn hjálparbíll mun fá að fara yfir fyrr en síðasta líkið hefur verið skilað.“
Tsav 9 birti einnig myndband þar sem meðlimir hópsins sjást stöðva flutningabíl sem var á leið með aðstoð.
Samkvæmt The Times of Israel hefur hópurinn ítrekað truflað afhendingu mannúðaraðstoðar til Gaza með því að loka vegum að landamærastöðvum, mótmæla og í sumum tilvikum ráðast á eða skemma sendingar.
Samkvæmt vopnahléssamkomulaginu hefur Hamas sleppt tuttugu ísraelskum gíslum á lífi og afhent líkamsleifar tíu til viðbótar í skiptum fyrir nærri 2.000 palestínska fanga, sem flestir ef ekki allir hafa verið í haldi án dóms og laga. Hreyfingin hefur jafnframt sagt að hún vinni að því að endurheimta lík þeirra ísraelskra gísla sem enn er saknað.
Komment