
Ómar Sigurðsson skipstjóri greinir frá því í Facebook-færslu að hann hafi fengið alvarlegt hjartaáfall fyrir tæpri viku, þegar hann var á leið á fótboltaleik á Hlíðarenda. Hann segir atburðina hafa gerst skyndilega og að hann hafi strax fundið að eitthvað alvarlegt væri að.
„Fyrir tæpri viku, var ég að fara á leik að Hlíðarenda búinn að leggja bílnum, þegar yfir mig hellist undarleg líðan. Fyrst sló út á mér köldum svita og ónot og ógleði,“ skrifar Ómar.
Hann ákvað að sleppa leiknum og leitaði þess í stað á bráðamóttöku. „Þegar þangað kom var mér orðið ljóst að það var hjartaáfall í uppsiglingu,“ segir hann.
Þegar hann kom inn á bráðamóttökuna versnaði ástandið hratt. „Ég gekk hægum og öruggum skrefum að að móttökunni, en þegar inn kom var brjóstverkurinn orðinn óbærilegur og öndunarerfiðleikarnir svo miklir að ég stóð ekki lengur í lappirnar.“
Ómar lýsir skjótum og faglegum viðbrögðum starfsfólks. „Það varð mikið viðbragð á bráðamóttökunni, fjöldi sjúkraliða og lækna tóku á móti mér og drifu mig inn í rannsókn.“ Hann segir að fljótlega hafi alvarleiki málsins verið staðfestur. „Sett var á mig hjartastuðtæki, blóðprufa og línurit tekið, sem staðfestu alvarleika málsinns.“
Þrátt fyrir að hann hafi verið mjög slæmur þá upplifði hann mikla fagmennsku. „Þó ég hafi verið hálf rænulaus þegar þarna var komið, leyndi fagmennskan sér ekki. Ertu ekki með okkur Ómar heyrðist reglulega í hjúkrunarkonunni ...“
Þræðingarteymi var kallað út og kom í ljós að ein kransæð var alveg lokuð. „Mér var ekið niður á lansa, þræddur, ein kransæð var 100 % lokuð. Læknirinn sagði mér að æðin væri ekki á frábærum stað, en hann ætlaði að reyna að opna hana.“
Aðgerðinni lauk með góðum árangri. „Enn og aftur var heppnin með mér, þessi læknir reyndist snillingur og með þolinmæði og öguðum vinnubrögðum tókst að opna æðina.“
Ómar er nú á hjartadeild og lýsir miklu þakklæti. „Nú sit ég hérna á hjartadeildinni, hálf klökkur af þakklæti, það er stjanað við mig af starfsfólkinu, sem ávarpar mig allt með nafni, maturinn og vistin eins góð og hún getur orðið.“
Hann segir ljóst að útkoman hefði getað orðið önnur. „Þetta hefði getað farið öðruvísi.“ Í lokin þakkar hann starfsfólki spítalans sérstaklega. „En elskulega starfsfólk bráðamóttökunar og hjartadeildarinnar þúsund þakkir, þið eruð meiriháttar.“
Að lokum bætir hann við léttari nótum: „Ps: ég gleymdi að skrá bílinn inn á bílaplanið Gústi ég komst ekki á leikinn eins og ég lofaði. Ég skila inn vottorði ... 🙂“

Komment