
No Borders Iceland bjóða upp á tónlistarveislu í júlí til stuðnings flóttafólki. Mörg af stærstu nöfnum í íslenskri tónlist stíga á svið auk aðgerðasinnahópurinn rússneski Pussy Riot sem þekktur er um heim allan.
Þann 11. júlí blæs No Borders Iceland til hátíðar sem kallast Hátíð gegn landamærum, sem fram fer í Iðnó. Meðal tónlistarfólks sem fram koma á hátíðinni má nefna Pál Óskar Hjálmtýrsson, Pussy Riot, Inspector Spacetime, Alexander Jarl og sigurvegarar Músíktilrauna í ár, Geðbrigði. Þá þeytir Dj. Óli Dóri skífum.

Í fréttatilkynningu frá No Borders Iceland segir meðal annars: „Markmið hátíðarinnar er að skapa vitundarvakningu um réttindabaráttu fólks á flótta og þeirri erfiðu stöðu sem það býr við, bæði á Íslandi og um allan heim. Fólk á flótta eru manneskjur með rödd, líf og rétt til ferðafrelsis og öryggis.“
Miðasala hefst á morgun, 13. maí klukkan 10:00 en eins og segir í fréttatilkynningunni er ljóst að færri komast að vilja. „Þú vilt ekki missa af þessu magnaða kvöldi, þar sem tónlist og aktívismi mætast í dúndrandi og ógleymanlegri stemningu.“
Páll Óskar og Diana Burkot úr Pussy Riot sendu bréf með fréttatilkynningunni sem má lesa hér að neðan:
Bréf Páls Óskars:
Við erum öll komin af sömu öpunum,
úr sömu sköpunum á móður jörð.
Í útlöndum, þeir elska alveg eins og þú,
af því þeir finna það nákvæmlega sama.
Hvítt eða svart, um það er engin leið að fást,
því hrein og heilbrigð ást
sér engan mun.
Þú veist það vel að ástin spyr aldrei um lit,
þegar við finnum það nákvæmlega sama.
Te quiero, meine Liebe, my love
Je t´aime, mi amora
Þú finnur að ástin
Er international.
Engin manneskja er ólögleg.
Páll Óskar
Bréf Diönu Burkot:
Það er mér sannur heiður að fá að taka þátt í viðburði No Borders Iceland. Sérstaklega í ljósi þess að málefnið er mér hjartans mál þar sem ég er núna pólitísk flóttakona og innflytjandi.
Ég get ekki snúið aftur til heimalands míns þar sem sakamál var höfðað gegn mér á grundvelli 207.3 greinar rússneskra hegningalaga – „Opinber dreifing rangra upplýsinga um starfsemi rússneska hersins“ – sem getur varðað allt að 15 ára fangelsi.
Ég hef búið á Íslandi í um það bil þrjú ár – unnið, stundað nám, greitt skatta – og svo varð ég allt í einu ástfangin af víkingi :)
Fyrst um sinn gat ég varla áttað mig á því hvernig farsímaþjónustan eða almenningssamgöngur virkuðu í Reykjavík – strætó er mér ennþá hulin ráðgáta :)
Það sem veldur mér þó þungum áhyggjum er aukin andúð gagnvart innflytjendum og flóttafólki. Áróður og popúlísk umfjöllun af hálfu íhaldssamra og öfgahægri stjórnmálasamtaka í landinu.
Til dæmis sýna opinberar tölur að glæpatíðni meðal innflytjenda er mjög lág, en almenningi er sífellt talið í trú um að flóttafólk og innflytjendur séu rót vandamála landsins – þegar hið rétta er að við tökum í raun oft að okkur erfiðustu og láglaunuðustu störfin.
Ég tel að með þessum viðburði fáum við öll tækifæri til að læra eitthvað nýtt hvert um annað – og það er virkilega hvetjandi. Skilaboðin eru skýr: Opið hugarfar – ekki lokuð landamæri!
- Diana Burkot, meðlimur Pussy Riot
Í fréttatilkynnigunni er sagt frá því hvað kveikti neistann um að koma No Borders-hreyfingunni í gang hér á landi:
„Nú eru tæp 17 ár liðin frá því að síðan hópur aðgerðasinna hljóp út á flugbrautina í Keflavík til að stöðva brottvísun flóttamannsins Paul Ramses árið 2008. Það var neistinn sem kom No Borders-hreyfingunni af
stað – og baráttan er langt frá því að vera búin.
Vertu með þann 11. júlí, þegar við komum saman til að fagna frelsinu sem felst í virku andófi, til að minna á að baráttan heldur áfram og til að fræða fólk um aðstæður flóttafólks.
Lengi lifi barátta þeirra villtu og frjálsu!
Engin manneskja er ólögleg!
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um hátíðina á samfélagsmiðlum No Borders Iceland (Facebook og Instagram).“
Hér má svo sjá dagskrá hátíðarinnar:
DAGSKRÁ:
19:00 – Gróa
19:40 – Kusk & Óviti
20:20 – Geðbrigði
21:00 – Flesh Machine
21:40 – Izleifur
22:20 – Inspector Spacetime
23:00 – Alexander Jarl
23:40 – Páll Óskar
00:20 – Pussy Riot
01:00 – DJ Óli Dóri
Komment