
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að nýlegar viðræður við samninganefnd Bandaríkjanna um að binda enda á stríðið í Úkraínu hafi verið „mjög gagnlegar“, en hann ítrekaði jafnframt hámarkskröfur sínar og landakröfur sem hafa staðið í vegi fyrir lausn málsins.
Í aðdraganda ferðar sinnar til Nýju Delí í dag sagði Pútín í viðtali við India Today TV að hann hygðist ná yfirráðum yfir Donbas-héraðinu í austurhluta Úkraínu með hervaldi og staðfesti þar með fregnir frá Kreml um að enginn samhljómur hefði náðst í samtölum hans deginum áður við bandarísku fulltrúana Steve Witkoff og Jared Kushner.
„Í stuttu máli snýst þetta um þetta: annaðhvort munum við frelsa þessi svæði með hervaldi, eða úkraínskar hersveitir yfirgefa þessi svæði og hætta bardögum þar,“ sagði hann í brotum úr viðtalinu sem ríkisfréttastofan Tass birti í gær.
Pútín sendi tugþúsundir hermanna inn í Úkraínu í febrúar 2022 eftir átta ára átök á milli hersveita sem nutu stuðnings Rússa og úkraínskra hersveita í Donbas, sem samanstendur af héruðunum Donetsk og Luhansk.
Endurnýjuð ákveðni Pútíns virkar nú sem köld tuska framan í yfirlýsingu Donalds Trump Bandaríkjaforseta fyrr um að Witkoff og Kushner hefðu talið að rússneski leiðtoginn vildi „ljúka stríðinu“.
„Þeir fengu mjög sterka tilfinningu fyrir því að hann vildi gera samkomulag,“ sagði Trump.
Umræddar yfirlýsingar Pútíns birtust á sama tíma og fregnir bárust af því að sérstakur sendifulltrúi Trump, Witkoff, og Kushner, tengdasonur hans, myndu hitta Rústem Umerov, aðalviðræðumann Úkraínu, í Flórída í dag í framhaldi af fimm klukkustunda viðræðum í Moskvu á þriðjudag.
Volodýmír Zelenskíj, forseti Úkraínu sem hefur glímt við framrás Rússa og innlenda spillingu, ítrekar að hann hafi ekki heimild til að afsala úkraínsku landi og að Rússland eigi í öllu falli ekki að hljóta umbun fyrir innrás sína. Úkraínsk stjórnarskrá bannar einnig afsal lands.
Í viðræðum við Bandaríkin um mögulegar útlínur friðarsamkomulags hefur Rússland ítrekað lagt áherslu á að vilja yfirráð yfir öllu Donbas og að Washington viðurkenni það óformlega.
Óvíst hvaða drög séu rædd
Sjónarmið Kremlar virtist hafa náð yfirhöndinni þegar Trump birti 28 liða áætlun sína til að binda enda á stríðið. Upphaflega gerði hún ráð fyrir að Úkraína afsalaði sér öllu Donbas-héraði, takmarkaði stærð hers síns og yfirgæfi drauma um aðild að NATO.
Eftir harða gagnrýni á plagginu, sem margir sögðu að væri beinlínis óskalist Rússa, knúðu úkraínskir samningamenn fram breytingar í viðræðum í Genf í Sviss þar sem uppkastið var skorið niður í 19 liði.
Óljóst var eftir viðræðurnar í Moskvu hvaða útgáfa samningsdraganna hefði verið til umræðu. Aðstoðarmaður Pútíns, Júrij Úsjakov, sagði fyrr að nokkur skjöl væru til skoðunar.
Í endursögn Tass á orðum Pútíns við India Today kom fram að 28 liða áætlunin væri „enn í gildi og til umræðu“ og byggði á samkomulagi sem náðist á leiðtogafundi Rússlands og Bandaríkjanna í Alaska í ágúst.
„Þeir rifu bara þessa 28 eða 27 liði í fjóra pakka. Og þeir lögðu til að við ræddum þessa fjóra pakka. En í raun eru þetta sömu punktarnir,“ sagði Pútín, að sögn Tass.
Árásir Rússa halda áfram
Flugskeyti lenti á Krivíj Ríh á miðvikudagskvöld og særði sex manns, þar á meðal þriggja ára stúlku, að sögn Oleksandr Vilkul, yfirmanns borgarstjórnar. Hann sagði árásina hafa skemmt meira en 40 íbúðarhús, skóla og gaslagnir. Borgin er heimabær Zelenskíjs.
Sex ára stúlka lést í Kherson eftir að rússnesk stórskotahríð hæfði hana daginn áður.
Rússar gerðu einnig drónaárás á Odesa og særðu átta; borgaraleg og orkutengd innviði skemmdust, að sögn Oleh Kiper, yfirmanns herstjórnarhéraðsins. Í dag sakaði Maria Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, Úkraínu um að torvelda friðarviðræður með árásum á olíuskip í Svartahafi og olíuflutningalestir við Novorossíjsk.
Rússland ræður nú yfir 19,2 prósentum Úkraínu, þar með talið Krímskaga sem það innlimaði 2014, öllu Luhansk, yfir 80 prósentum Donetsk, um 75 prósentum Kherson og Zaporizhzhia og hluta Kharkív-, Súmer-, Mykólaív- og Dníprópetróvsk-héraða, samkvæmt Reuters.
Yfirmaður úkraínska hersins sagði í dag að úkraínskar hersveitir héldu enn norðurhluta lykilborgarinnar Pokrovsk í Donetsk.
Um 5.000 ferkílómetrar af Donetsk eru enn undir stjórn Úkraínu.

Komment