
Þóra Jónsdóttir skáld lést á hjúkrunarheimilinu Grund, 100 ára að aldri en mbl.is greindi frá andláti hennar.
Þóra fæddist 17. janúar árið 1925 á Bessastöðum á Álftanesi. Foreldrar hennar voru Jón H. Þorbergsson, bóndi á Laxamýri, og Elín Vigfúsdóttir, húsfreyja og skáld.
Þóra settist á skólabekk við Héraðsskólann á Laugum í Reykjadal á árunum 1940-1942. Hún lauk svo stúdentspróf úr MA á Akureyri.
Þóra kenndi við Flensborgarskólann í Hafnarfirði veturinn 1948-1949. Hélt síðan til Danmerkur - Kaupmannahafnar - þar sem hún nam bókmenntir við Hafnarháskóla frá 1949-1952.
Eftir heimkomuna fór Þóra í Kennaraskóla Íslands; lauk prófi þaðan árið 1968.
Hún starfaði á Borgarbókasafni Reykjavíkur á árunum 1975-1982. Þóra var skáld og fyrsta ljóðabók hennar, Leit að tjaldstæði, var útgefin árið 1973. Eftir það sendi Þóra frá sér fjölda ljóðabóka auk ljóðaþýðinga.
Þá kom út safnrit með ljóðum úr fyrstu sjö ljóðabókum Þóru hjá bókaforlaginu Sölku haustið 2005, undir titlinum Landið í brjóstinu. Auk skáldskaparins vann Þóra við myndlist og á mörgum kápum bóka hennar voru hennar eigin myndir.
Eiginmaður Þóru var Páll Flygenring ráðuneytisstjóri, sem lést árið 2017 og börn þeirra eru Björn, Kristín og Elín.
Komment