„Ísraelar ráðfærðu sig við Trump-stjórnina og Hvíta húsið vegna árása þeirra á Gasasvæðinu í nótt,“ sagði blaðafulltrúi Hvíta hússins, Karoline Leavitt, í viðtali við Fox News í dag.
„Eins og forseti Trump hefur tekið skýrt fram - Hamas, Hútarnir, Íran, allir þeir sem leitast við að hræða ekki aðeins Ísrael, heldur einnig Bandaríkin, munu fá að gjalda fyrir það. Allt mun fara til fjandans,“ sagði þessi talsmaður Hvíta hússins.
Trump hafði áður gefið út opinbera viðvörun með svipuðum orðum, þar sem hann sagði að Hamas ætti að láta alla gísla í Gaza lausa eða „láta allt fara til fjandans.“
Yfir 400 manns hafa fundist látin eftir loftárásirnar, sem gerðar eru undir því yfirskini að ekki hafi allir gíslar verið frelsaðir úr höndum Hamas sem teknir voru í árásum 7. október 2023. Í árásum Hamas voru 1.200 Ísraelar drepnir og 250 handteknir.
Hernaðaraðgerðir Ísraels gegn Gaza í kjölfarið hafa drepið yfir 48.000 Palestínumenn, samkvæmt heilbrigðisráðuneyti svæðisins, og einnig vakið ásakanir um þjóðarmorð og stríðsglæpi sem Ísrael neitar. Árásirnar hafa valdið því að nánast allir 2,3 milljónir íbúa Gaza hafa þurft að flýja heimili sín og leitt til hungursneyðar.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lagt fram þá tillögu að Palestínumenn verði fluttir frá Gasasvæðinu og þar byggi Bandaríkin upp lúxusferðaþjónustu. Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa leitað leiða til að flytja Palestínumenn til Austur-Afríku.
Donald Trump hefur verið lýst sem friðarsinna, meðal annars af honum sjálfum, en um helgina fyrirskipaði hann loftárásir í Jemen þar sem yfirvöld segja að 53 hafi látist, aðallega börn og konur. Er það gert eftir árásir Húta-hreyfingarinnar á skipaumferð.
„Mín stoltasta arfleið verður friðarstillir og sameiningartákn,“ sagði Trump í vígsluræðu sinni 20. janúar síðastliðinn.
Komment