
Ragnhildur Þórðardóttir, sálfræðingur og einkaþjálfari, sem flestir þekkja undir nafninu Ragga nagli, birti í dag persónulega Facebook-færslu þar sem hún beinir orðum sínum til 19 ára útgáfu af sjálfri sér. Í færslunni rifjar hún upp upphafið að ævilangri ást á styrktarþjálfun og líkamlegri seiglu, og þakkar sjálfri sér fyrir hugrekkið að velja þá leið.
„Kæri 19 ára Nagli. Ég skrifa til þín úr framtíðinni sem miðaldra 46 ára á breytingaskeiði. Þetta bréf er þakkarbréf,“ skrifar Ragnhildur í upphafi færslunnar.
Hún segir ungu útgáfu sína hafa lagt grunninn að líkamlegum og andlegum styrk sem hún nýtur enn í dag. Hún þakkar sérstaklega fyrir að hafa orðið „ástfangin af járnrífingum“ og fyrir að hafa haft kjark til að feta sig inn í ræktarumhverfi sem þá var að mestu karllægt.
„Takk fyrir að hafa hugrekkið til að spígspora með hökuna upp og kassann fram inn í strákagerið í ræktinni, og munda galvaníseraðar stangir og lóð. Takk fyrir að finnast það kúl og töff að vera sterk,“ skrifar hún.
Í færslunni lýsir Ragnhildur einnig hvernig hún mótaði sjálfsmynd sína með því að hafna hefðbundnum fegurðarstöðlum og í staðinn sækjast eftir styrk og vöðvum.
„Takk fyrir að finnast vöðvaðir vogskornir kvenskrokkar eftirsóknarvert útlit,“ segir hún og rifjar jafnframt upp hvernig hún sökkti sér í fræðslu um þjálfun.
„Takk fyrir að kaupa ógrynni af vöðvablöðum með heljarmennum á forsíðunni og lúslesa spjaldanna á milli til að fræðast um prógrammagerð, lyftingatækni, bætiefni og mikilvægi prótína – en ekki síður til að smyrja blóði á tennurnar í innblæstri fyrir næstu æfingu.“
Hún dregur enga dul á að leiðin hafi krafist fórna og seiglu.
„Takk fyrir að svífast einskis í að ná markmiðunum að verða sterk og mössuð. Takk fyrir að vera drull þó þú rymjir eins og hryssa með hríðir í settunum,“ skrifar hún og bætir við að ræktarferðirnar hafi verið negldar sem órjúfanleg heilsuvenja í lífi hennar.
Ragnhildur segir árangurinn enn skýran rúmum aldarfjórðungi síðar.
„Þökk sé þér er ég ennþá sterk, með dúndurhraða og snerpu. Ennþá að lyfta þungt eins og jakuxi, spretta eins og gasella, hoppa á kassa, djöflast í burpees, wall balls, ketilbjöllum og tapa gleðinni á assault (asshole) hjólinu.“
Hún lýkur færslunni á léttum og sjálfhæðnum nótum:
„46 ára gæti ég sigrað þig í öllu líkamlegu nema mögulega vodkadrykkju. Virðingarfyllst, Ragnhildur Þórðardóttir.“

Komment