
Rússnesk yfirvöld hafa lokið rannsókn á umfangsmiklu svikamáli sem tengist bótagreiðslum og ríkisverðlaunum til hermanna í 83. loftárásarsveit rússneska hersins, að því er dagblaðið Kommersant greinir frá. Samkvæmt rannsókninni skutu hermenn og yfirmenn innan sveitarinnar vísvitandi hver á annan til að fá bætur. Samtals fengu þeir meira en 200 milljónir rúblna (tæplega 2,5 milljónir Bandaríkjadala), auk forréttinda og verðlauna, meðal annars Orden djasnosti (Hugrekkisorða) og Orðu fyrir þor.
Málið komst upp þegar einn úr sveitinni bar vitni fyrir herlögreglu og sagði að meiðsli og verðlaun hefðu verið uppspuni. Hann verður nú vitni í málinu.
Alls eru 35 hermenn ákærðir og málið spannar um 100 bindi af gögnum. Helstu sakborningar eru fyrrverandi yfirmaður sveitarinnar, ofurstinn Artem Gorodilov, og fyrrverandi yfirmaður sérsveitarhópsins, varaliðsforinginn Konstantín Frolov, betur þekktur undir kallmerkinu Böðullinn. Báðir voru handteknir sumarið 2024, hafa játað sekt sína og gert samninga við saksóknara.
Tengdir stríðsglæpum í Bútsa
Gorodilov hefur verið tengdur við morð á óbreyttum borgurum í Kænugarðshéraði. Áður en hann tók við 83. sveitinni stýrði hann 234. loftárásarsveit frá Pskov, sem New York Times hefur tengt við fjöldamorðin í Bútsa. Hann er ákærður fyrir stórfelld svik.
Undirmaður hans, Frolov, er ákærður fyrir svik, mútur, ólöglegt vopnaeignarhald og vörslu sprengiefna. Samkvæmt Kommersant tengjast síðustu ákærurnar vopnageymslum sem fundust í sjálfskipaða Luhansk-lýðveldinu, þar sem meðal annars voru skotvopn, skotfæri, sprengjur og handsprengjur.
Rannsóknin leiddi í ljós að Frolov hafði „meiðst“ fjórum sinnum í stríðinu en bar þó merki sem sýndu sjö meiðsl. Í ljós kom að öll „meiðslin“ höfðu verið sviðsett, félagar hans höfðu skotið á hann samkvæmt hans eigin óskum. Þrátt fyrir þetta hlaut hann fjögur Orden djasnosti og tvær Orður fyrir þor.
Lygasögur í ríkismiðlum
Þættir í ríkissjónvarpi voru sagðir sína tilbúning frá rótum og Frolov sakaður um að hafa skáldað sögur, þar á meðal að hann hefði ættleitt stúlku sem bjargað var undan skothríð, og að hann hefði leitt „árangursríkasta skotliðshóp Rússa“ í Úkraínu. Í einum þætti á Channel One í febrúar 2024 var hann kynntur sem hetjuskytta sem hafnaði læknaleyfi og fór strax aftur á vígvöllinn eftir „sjöundu meiðsli sín“.
Í sama innslagi sagðist hann tala nokkur erlend tungumál, þar á meðal arabísku og pastó, en vildi ekki nefna fleiri vegna fyrri starfa sinna. Í öðru myndbandi frá varnarmálaráðuneytinu var hann kynntur sem „Z-hetja“ en andlit hans hulið með lambhúshettu. Blaðamenn hjá Agentstvo notuðu andlitsgreiningartækni og greindu hann með 98% vissu sem Konstantín Frolov.
Fjölskyldutengsl og fortíð
Frolov fæddist í Kænugarði, bjó síðar í Moskvu og síðan í Pétursborg. Hann er sonur Olegs Frolov, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Roscosmos og yfirmanns Mozhaysky geimherakademíunnar. Sjálfur starfaði Konstantín einnig við akademíuna og skráði sig á öðrum áratug aldarinnar sem deildarstjóra hjá rússnesku leyniþjónustunni FSB, þegar hann sótti um bankalán.
Samkvæmt Kommersant var það Frolov sem gaf rannsókninni upplýsingar gegn yfirmanni sínum Gorodilov. Báðir báðu um að vera sendir aftur á vígvöllinn í stað þess að mæta fyrir dóm, en þeirri beiðni var hafnað.
Komment