
Jasmina Vojzovic, ráðgjafi og stjórnmálafræðingur gagnrýnir harðlega nýlegar fréttir af hópi fyrrum ofbeldismanna, sem kallar sig Skjöld Íslands.
Hópurinn gekk á föstudag um miðbæ Reykjavíkur og sögðust meðlimirnir vera að vernda íslensk gildi og bregðast við of linri innflytjendastefnu stjórnvalda.
Jasmina, sem er upprunalega frá Bosníu hefur áralanga reynslu af því að vinna í málefnum innflytjenda, hælisleitenda og flóttafólks, bæði hjá Reykjavíkurborg og svo rekur hún nú eigið ráðgjafafyrirtæki.
Í færslu sinni lýsir Jasmina atburðinum sem „hótun“ gegn lögum, réttarríkinu og mannréttindum.
„Þeir eru komnir með nóg,“ skrifar Vojzovic, en spyr áleitinna spurninga um hvað það nákvæmlega merkir:
„Hvað er það sem þeir hafa fengið nóg af? Lögum? Réttarríkinu? Samkennd með minnihlutahópum?“
Vojzovic gagnrýnir hvernig stjórnvöld hafi annað hvort verið sofandi eða „sofnað viljandi“, sem hafi leitt af sér öfgafull viðbrögð:
„Þeir fullyrða að stjórnvöld séu sofandi en í raun má segja að þau hafi einfaldlega sofnað viljandi. Og hvíldin þeirra hefur gefið af sér eitthvað langt hættulegra en þreytu. Hún hefur fætt öfgarnar.“
Hún bendir á aukinn fjandskap gagnvart hælisleitendum og innflytjendum, ásamt harðnandi umræðu á samfélagsmiðlum. Hún skorar á stjórnvöld að bregðast við slíkri umræðu og hatursorðræðu:
„Hvað gerist þegar löggjafinn rýrir traust á mannréttindasáttmálum? Þegar stjórnvöld tala með afneitun um kerfisbundið brot á réttindum fólks á flótta? Þegar ekki er brugðist við hatursorðræðu og áróðri gegn innflytjendum og hælisleitendum heldur er það látið viðgangast í nafni „þjóðaröryggis“ eða „aðgerða gegn kerfisleysi“? Það gerist nákvæmlega þetta. Þá mæta fyrrum glæpamenn í svörtum jökkum niður á torg og segja: „Við tökum þetta yfir“.“
Vojzovic lýsir hópnum sem „hótun“ og fremur alvarlegar ásakanir gegn réttarríkinu sjálfu.
„Þetta er ekki gagnrýni á stjórnsýslu. Þetta er hótun. Þetta er niðurbrjótandi afstaða gagnvart réttarríki, mannréttindum og lýðræði.“
Hún varar við að fórnarlömbin verði sérstaklega viðkvæmir hópar eins og hælisleitendur, innflytjendur og aðrir í útjaðri samfélagsins.
„Og þeir sem verða fórnarlömbin eru einmitt þeir sem eru minnst varðir: hælisleitendur, innflytjendur, fólk sem hefur enga rödd, enga talsmenn í kerfinu og engin völd.“
„Annars erum við ekki að tala um öryggi, heldur upphafið að sundruðu, skelfilegu samfélagi“
Hún gefur stjórnvöldum skýrt tækifæri til að bregðast alvarlega við. „Ekki þykjast hneykslast núna. Þetta var fyrir löngu fyrirséð. Ef stjórnvöld ætla sér að bregðast við þessu af fullri alvöru og endurheimta traust og stjórn á réttaröryggi borgaranna þá þarf það að gerast núna. Ekki með orðagjálfri heldur með skýrum aðgerðum: Fordæma þessar aðgerðir opinberlega og afdráttarlaust. Tryggja að lögregla verji öll mannréttindi, ekki bara hagsmuni háværra hópa. Endurskoða ábyrgð sína í því að þessi staða varð til.“
Jasmina óttast framhaldið. „Annars erum við ekki að tala um öryggi, heldur upphafið að sundruðu, skelfilegu samfélagi þar sem valdið liggur ekki lengur hjá lýðnum heldur þeim sem eru tilbúnir að beita hótunum, ofbeldi og þöggun.“
Komment