Einstaklega glæsilegt og reisulegt einbýlishús ásamt aukaíbúð með sérinngangi hefur vakið athygli á eftirsóttum og friðsælum stað í hjarta höfuðborgarinnar. Þetta glæsilega hús er einmitt til sölu.
Um er að ræða sögufræga eign sem sameinar klassískan arkitektúr og nútímaleg þægindi á afar vandaðan hátt.
Húsið var byggt árið 1898 og stóð upphaflega við Lindargötu. Árið 2005 var það flutt að Nýlendugötu 5A, þar sem það var reist á nýsteyptum kjallara. Núverandi eigendur hafa endurnýjað húsið að fullu og lagt ríka áherslu á að varðveita upprunalegan stíl og karakter þess, sem setur sterkan svip á eignina.
Eignin er á þremur hæðum auk íbúðar í kjallara og einkennist af björtu og vel skipulögðu innra rými. Lofthæð er óvenju mikil í öllum rýmum, sem er sjaldgæft í eldri húsum. Í húsinu eru sex svefnherbergi, rúmgóð stofa og borðstofa, tvö baðherbergi og þvottahús. Í kjallara er aukaíbúð með sérinngangi sem býður upp á fjölbreytta nýtingarmöguleika.
Að utan skartar eignin einstaklega skjólgóðum garði sem snýr í suðvestur. Þar er heitur pottur, fallegur gróður, grasflöt og upphituð hellulögn, auk skjólveggja með notalegri kvöldlýsingu. Garðurinn býður upp á rólegt og aðlaðandi útivistarsvæði í miðborgarumhverfi. Austan við húsið er rúmgóð upphituð innkeyrsla með stæði fyrir tvo bíla.
Eigendurnir vilja fá 219.000.000 fyrir húsið.


Komment