Á einstökum stað við sjávarsíðuna í Kjós stendur glæsilegt einbýlishús með gestahúsi á 4.866 fermetra eignarlóð og er húsið til sölu.
Eignin, sem ber heitið Miðbúð 5, var byggð árið 2010 og er heilsársíbúðarhús sem hefur jafnframt verið nýtt með góðum árangri í ferðamannaþjónustu.
Aðalhúsið er samtals 185,7 fermetrar á tveimur hæðum. Neðri hæðin er 124,1 fermetri og þar eru eldhús, borðstofa og stofa í opnu og björtu rými. Samkvæmt teikningum er gert ráð fyrir tveimur svefnherbergjum á hæðinni. Gólfhiti er um alla neðri hæð og þar er jafnframt baðherbergi með upphengdu salerni og rúmgóðum „walk-in“ sturtuklefa.
Á efri hæð, sem er 61,6 fermetrar, eru tvö aðskilin svefnrými og baðherbergi með frístandandi baðkari sem býður upp á notalega og afslappandi stemningu.
Á lóðinni stendur einnig 47,6 fermetra gestahús, byggt árið 2022. Gestahúsið er einingahús sem skiptist í stofu með opnu eldhúsi, svefnherbergi og baðherbergi með sturtuklefa, upphengdu salerni og handlaug. Stofan getur einnig nýst sem svefnrými, sem eykur sveigjanleika í nýtingu.
Sjávarmegin við húsin er sérstætt gufubað úr gleri og timbri, ásamt steyptum heitum potti, þar sem hægt er að njóta stórbrotins útsýnis yfir Hvalfjörð og fjallahringinn í norðri.
Eigendurnir óska eftir tilboðum í eignina.


Komment