
Biskup Íslands hefur útnefnt séra Maríu Guðrúnar. Ágústsdóttur sem prófast Vesturlandsprófastsdæmis en þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðkirkjunni.
Tekur María við af séra Gunnari Eiríki Haukssyni fráfarandi sóknarpresti á Stykkishólmi. María er sóknarprestur við Reykholtsprestakall í Borgarfirði og heldur því starfi áfram.
Í rúm þrjátíu ár, allt til ársins 2024, starfaði María innan marka Reykjavíkurprófastsdæmis vestra. Hún vígðist til prestsþjónustu við Dómkirkjuna í Reykjavík þann 3. janúar árið 1993 og hafði umsjón með barna- og æskulýðsstarfi safnaðarins í fjögur ár.
Samkvæmt tilkynningunni starfaði María á fræðslusviði Biskupsstofu og sem prestur í Háteigskirkju og við Landspítalann þar til hún tók við þjónustu héraðsprests prófastsdæmisins árið 2000, lengst staðsett í Hallgrímskirkju. Loks var María um sjö ára skeið prestur og sóknarprestur í Grensásprestakalli, síðar Fossvogsprestakalli. Haustið 2024 fékk hún leyfi frá þjónustu sinni í Reykjavík til að leysa af í nokkra mánuði sem prestur í Glerárprestakalli á Akureyri. Þann 1. desember 2024 var María ráðin til að gegna starfi sóknarprests í Reykholtsprestakalli í Vesturlandsprófastsdæmi þar sem hún sinnir þjónustu við sex sóknir og annast helgihald í níu kirkjum og kapellum eftir því sem við verður komið.
Komment