
Meghan Markle gaf fylgjendum sínum innsýn í hrekkjavökutilburði fjölskyldunnar, þar sem Harrý prins skar út grasker og börnin léku sér á graskersreit.
Myndband, sem hertogaynjan af Sussex birtir á Instagram-síðu sinni, sýnir stutt myndbrot og ljósmyndir af fjögurra manna fjölskyldunni í reitnum. Það er merkt „Happy Sunday“ og undir spilar klassíski smellurinn California Dreamin’ með The Mamas & the Papas.
Myndbandið hefst á upptökum af röðum af graskerum á sveitabýlinu og fuglahræðu áður en hinn sex ára Bogi sést hlaupa eftir vegi umluktum graskerum. Hin þriggja ára Lísabeta Díana sést sitja í kerru meðal stórra graskera, dregin af móður sinni, og síðar velja sér lítil grasker úr hátíðlegu tunnuíláti.
Á einu hlýlegu augnabliki má sjá Harrý og Meghan ganga hönd í hönd með bakið að myndavélinni á meðan Bogi hleypur á undan eftir stígnum.
Meghan birti einnig hraðspólað myndbrot á Instagram-sögu sinni þar sem Harrý er að skera vandlega út grasker með merkipenna og hníf, sem endar sem brosandi graskersljós.
Í samræmi við fyrri færslur hefur Meghan haldið andlitum barnanna utan myndar til að verja friðhelgi þeirra.
Fréttirnar koma í kjölfar yfirlýsingar talsmanns Harrýs prins til Mirror vegna orðróma um að Sussex-hjónin hygðust senda Boga í Eton einkaskólann, einn dýrasta heimavistarskóla Bretlands. „Ég get staðfest að Harrý prins hefur ekki skráð Boga í Eton og hertoginn hefur engin áform um að senda son sinn í Eton,“ sagði talsmaðurinn við Mirror.

Komment