
Ráðist var á sjö ára gamalt barn á skólalóð Hvassaleitisskóla í maí á þessu ári en Sirrý Svöludóttir, móðir barnsins, greindi frá þessu á samfélagsmiðlum.
Samkvæmt henni hrækti fullorðin kona í andlit sonar hennar eftir að prik sem hann hafði kastað á skólalóðinni lenti í öxl konunnar. Óskaði Sirrý eftir aðstoð fólks við að finna umræddu en hún birti mynd af henni sem einhver í skólanum hafði tekið.
„Viðbrögð konunnar voru gjörsamlega úr öllu samhengi – hún tryllist, gargar á hann af mikilli reiði, hótar að hringja í foreldra hans og siga lögreglunni á hann, og skyrpir síðan beint í andlit sonar míns áður en hún gengur á brott!“ skrifaði Sirrý um málið.
„Þetta gerist allt fyrir framan fjölda barna, og voru öskrin svo mikil í konunni að kennari í Hvassaleitisskóla heyrir öskrin upp á 2.hæð skólans. Eftir sat sonur minn – titrandi af hræðslu, í algjöru losti og gjörsamlega skelkaður. Það tók okkur marga klukkutíma að ná upp úr honum hvað hafði gerst, svo mikið var áfallið.“
Mannlíf sendi ítrekaðar fyrirspurnir á skólastjóra Hvassaleitisskóla í maí til að spyrjast fyrir um hvernig tekið var á málinu í skólanum en fékk engin svör. Í þessari viku sendi Mannlíf svo fyrirspurn á Stein Jóhannsson, sviðsstjóra hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, til að reyna að fá upplýsingar um atvikið.
„Málið var leyst í samvinnu við foreldra barnsins og með aðstoð skólasálfræðings. Foreldrar höfðu frumkvæði að því að taka málið í sínar hendur og ákvörðun um framhald þess,” segir í svari borgarinnar.
„Hvorki skólinn né skóla- og frístundasvið hafa frekari upplýsingar um framvindu eða niðurstöðu málsins.”
Þá segir einnig í svarinu að skólastjóri Hvassaleitisskóla hafi verið í fríi þegar fyrirspurnir Mannlífs hafi verið sendar og þær gleymst í framhaldinu.

Komment