
Landssamband smábátaeigenda (LS) skorar á stjórnvöld að hverfa frá kvótasetningu í grásleppuveiðum og taka upp fyrra kerfi sem byggði á eldri veiðileyfum. Ályktun þess efnis var samþykkt á nýlegum aðalfundi sambandsins, þar sem kvótakerfinu var harðlega mótmælt. BB.is fjallaði um málið.
LS leggur til að dagar þar sem bátar þurfa að taka upp veiðarfæri vegna brælu eða annarra aðstæðna verði dregnir frá heildarveiðidögum.
Verði kvótakerfið engu að síður áfram við lýði, krefst sambandið þess að veiðiheimildir verði einungis úthlutaðar á smábáta og þeim bundnar. Þá á að heimila varanlega og árlega tilfærslu kvóta milli aflamarks- og krókaaflamarksbáta.
Jafnframt vill LS að lögum verði breytt þannig að tekið verði mið af réttindum þeirra sem stunduðu grásleppuveiðar á árunum 2014–2024, og að veiðiheimildir verði áfram takmarkaðar við smábáta.
Sambandið leggur einnig til að árlega verði skipuð sérstök grásleppunefnd, sem skipuð verði grásleppusjómönnum samkvæmt tilnefningum frá svæðisfélögum LS.
Fulltrúar stjórnarflokkanna í atvinnuveganefnd Alþingis hafa þegar lagt fram frumvarp um afnám kvótasetningarinnar og að færa grásleppustjórnun aftur í fyrra horf. Frumvarpið er nú til umfjöllunar á Alþingi.

Komment