Marko Blazinic hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að smygla eiturlyfjum til landsins.
Hann var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 4. september 2025 staðið að innflutningi á samtals 6.756,22 grömmum af kókaíni, sem hafði 68-70% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin flutti ákærði frá Svíþjóð falin í ellefu pakkningum í varahjólbarða og tveimur pakkningum í poka á gólfi undir ökumannssæti Volvo bifreiðar til Danmerkur og þaðan með farþegaferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar, þar sem fíkniefnin fundust við leit í bifreiðinni.
Blazinic játaði brot sitt en hann hefur ekki áður gerst brotlegur á Íslandi. Hann lýsti því fyrir dómi að hann hefði tekið verkið að sér gegn greiðslu í örvæntingu.
Hann var dæmdur í 4 og hálfs árs óskilorðsbundið fangelsi.


Komment