
Elsti sonur Michael Jackson, sem lést árið 2009, hefur tilkynnt að hann og Molly Schirmang hafi trúlofað sig eftir átta ára sambúð. Hann greindi frá gleðifréttunum á samfélagsmiðlum.
„Molly og ég höfum eytt miklum tíma saman og átt ótrúlegar minningar,“ skrifaði Prince, 28 ára, í færslu á Instagram í gær 26. ágúst. „Við höfum ferðast um heiminn, lokið námi og vaxið mikið saman. Ég hlakka til næsta kafla í lífi okkar þegar við höldum áfram að vaxa og skapa nýjar dýrmætar minningar. Ég elska þig, babs.“
Með skilaboðunum deildi Prince mynd af sér og unnustu sinni kyssast, þar sem hún hvíldi hönd sína á bringu hans til að sýna trúlofunarhringinn. Hann birti einnig nokkrar myndir af þeim saman, meðal annars í fjallgöngu, á kajaksiglingu og við útskrift þeirra frá Loyola Marymount háskólanum.
Sérstaklega vakti athygli að í færslunni var einnig hlý kveðja til fjölskylduarfsins. Þar mátti sjá mynd af parinu ásamt ömmu hans, Katherine Jackson, 95 ára, sitjandi á bekk fyrir utan Hayvenhurst, ættarsetur Jackson-fjölskyldunnar í Encino í Kaliforníu.
Þrátt fyrir að Prince hafi haldið ástarlífi sínu að mestu utan sviðsljóssins í gegnum árin, hefur hann opinskátt talað um að varðveita minningu föður síns.
„Ég er með myndir af honum og frændum mínum heima hjá mér,“ sagði Prince í viðtali við E! News árið 2022. „Ég á líka listaverk af honum uppi á veggjum.“
En það sem hann leggur þó mesta áherslu á er að lifa eftir þeim gildum sem faðir hans kenndi honum.
„Ég reyni að leiða líf mitt með kærleika, sem er það sem hann kenndi mér,“ útskýrði Prince. „Ég reyni að hjálpa að minnsta kosti einum einstaklingi á dag og mér finnst það vera leið til að halda arfleifð hans á lofti.“
Komment