
Myndbandsupptökur voru sýndar við dómstól í Lundúnum, sem sýna meint ofbeldi kvenkyns leikskólakennara gegn ungum börnum, þar sem hún á að hafa kýlt, gripið í og klipið þau á meðan hún starfaði á leikskólanum Riverside Nursery í Twickenham í suðvesturhluta Lundúna. Þar kostar leikskólagjaldið allt að 1.900 pund á mánuði (um 330 þúsund krónur).
Roksana Lecka, 22 ára, er sökuð um að hafa valdið rispum í andlitum barnanna og klípuför á fótleggjum og kvið þeirra. Kviðdómur var upplýstur um að alls hafi 23 börn orðið fyrir skaða á meðan þau voru undir hennar umsjón. Leikskólinn sinnir börnum á aldrinum 10 mánaða til tveggja ára.
Eitt ákæruatriði vegna barnaníðs tengist meintum atburði sem átti sér stað áður en Lecka hóf störf á leikskólanum. Við ráðningu hennar voru engin gögn sem bentu til þess að hún væri hættuleg börnum, samkvæmt því sem dómnum var sagt.
Í öryggismyndavélaupptökum sem sýndar voru fyrir dómi sást Lecka klípa barn á ýmsum stöðum á líkamanum. Í einu myndbandi virtist hún rífa í hár barns og klípa það í andlitið.
Í annarri upptöku sást hún að sögn reykja rafsígarettu áður en hún tók barn upp úr vöggu og kýldi það í síðuna. Lecka sést einnig þrífa harkalega í handlegginn á sama barni og togað í hár þess, með þeim afleiðingum að höfuð þess skall í borð.
Saksóknari sagði Lecka hafa litið í kringum sig til að kanna hvort einhver starfsmaður sæi til hennar áður en hún framkvæmdi ofbeldisverkin. Ekki var brugðist við fyrr en samstarfskona hennar tilkynnti að hún hefði séð hana klípa barn í fótlegginn. Þá var öryggismyndavélaefnið skoðað og virtist sýna Lecka klípa barnið í nef, líkama, úlnlið og munn.
Lecka var handtekin 5. júlí árið 2024. Í yfirheyrslu afhenti hún skriflega yfirlýsingu þar sem hún sagði:
„Ég hafna því alfarið að hafa ráðist á börn á leikskólanum Riverside. Ég mætti í vinnu þennan dag og allt var eðlilegt. Engin slys áttu sér stað þar sem börn virtust hafa meiðst. Við höfum skýrar verklagsreglur um meðhöndlun barnanna og ég fylgdi þeim. Ég veit ekki hvernig nokkur barn gæti hafa hlotið meiðsli.“
Lecka hefur verið ákærð fyrir fjölda brota vegna barnaníðs. Hún hefur játað tvö þeirra en neitar 21 brotum sem hún er sögð hafa framið á tímabilinu frá janúar til júní 2024.
Réttarhöldin halda áfram.
Komment