
Trúnaðarráð AFLs starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) hafa ákveðið, hvort í sínu lagi, að efna til atkvæðagreiðslu um verkfall í álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Austurfrétt segir frá málinu.
Undirbúningur verkfallsins hefur staðið yfir frá því í júlí þegar viðræður um nýjan kjarasamning fóru í hnút. Á fundi á miðvikudag náðist vissulega ákveðin hreyfing í deilunni, en ekki næg til að breyta stöðunni.
Trúnaðarráð RSÍ fundaði strax miðvikudagskvöldið en trúnaðarráð AFLs daginn eftir. Á báðum fundunum lá fyrir tillaga um að hefja atkvæðagreiðslu um verkfall og var hún samþykkt.
Unnið er nú að orðalagi þeirrar spurningar sem lögð verður fyrir félagsfólk. Um 500 starfsmenn álversins eru á kjörskrá og verður kosið rafrænt. Að sögn Hjördísar Þóru Sigurþórsdóttur, formanns AFLs, er stefnt að því að atkvæðagreiðslan hefjist á mánudag og standi í eina viku.
Ef verkfall verður samþykkt tekur það gildi sex mánuðum eftir að niðurstaða liggur fyrir, sem þýðir að það gæti hafist í lok mars 2026. Kjarasamningarnir hafa verið lausir frá lokum febrúar á þessu ári.
Nýr fundur hjá ríkissáttasemjara hefur ekki verið boðaður en samkvæmt Hjördísi Þóru mun sáttasemjari fara yfir stöðuna í næstu viku.
Komment