
Tveir starfsmenn við innritunarborð Frontier Airlines hafa misst vinnuna eftir að hafa hæðst að farþega sem var að reyna að innrita sig í flug en atvikið vakti mikla athygli eftir að myndband af samskiptunum fór í dreifingu á netinu.
Í myndbandinu má sjá farþega reyna að innrita sig í flug frá Norður-Karólínu til Boston, en samskiptin versna þegar starfsfólkið tilkynnir honum að það kosti 25 dali (3.270 kr.) að innrita sig í eigin persónu við borðið.
Farþeginn mótmælir gjaldinu og starfsmennirnir byrja að rífast við hann, neita að afgreiða hann og gera lítið úr honum með því að segja ítrekað: „Og þú hélst að þú værir að fara komast í flugið þitt.“
Hann hafði þá þegar tekið upp símann sinn til að skrá atvikið, en þá taka starfsmenn Frontier líka upp á því að taka upp á síma sína og andrúmsloftið verður enn eldfimara.
Talsmaður Frontier Airlines sagði í samtali við TMZ: „Við erum meðvituð um það sem gerðist og höfum haft beint samband við farþegann. Þeir einstaklingar sem um ræðir störfuðu hjá þriðja aðila sem Frontier samdi við og eru ekki lengur tengdir Frontier.“
Flugfélagið bætti því við að farþeganum hafi verið endurgreitt flugið sem hann missti af og hann hafi einnig fengið bætt annað flug sem hann bókaði til að komast heim.
Komment