
Fjölskylda leikarans Michael Madsen syrgir eftir að hann fannst látinn á heimili sínu í Malibu þann 3. júlí, aðeins 67 ára gamall.
Systir hans, leikkonan Virginia Madsen, birti tilfinningaþrungna kveðju til bróður síns sama dag í yfirlýsingu til Variety:
„Bróðir minn Michael hefur yfirgefið sviðið,“ skrifaði hún. „Hann var þrumur og flauel. Ólíkindatól vafið inn í mildi. Ljóðskáld í dulargervi útlaga. Faðir, sonur, bróðir, mótsagnakenndur í eðli sínu, en fullur af ást sem skildi eftir sig spor.“
Virginia, sem er þekkt fyrir hlutverk sitt í Candyman, lagði áherslu á að Michael, sem lætur eftir sig sjö börn, hafi verið miklu meira en bara kvikmyndastjarna.
„Við erum ekki að syrgja opinbera persónu,“ sagði hún áfram. „Við syrgjum ekki goðsögn, heldur hold og blóð og óstöðvandi hjarta. Hann stormaði í gegnum lífið, hávær, skær og hálfpartinn í ljósum logum. Hann skilur eftir sig bergmál, hrjúft, snjallt og óendurtakanlegt, hálf goðsögn, hálf vögguvísa.“
Þrátt fyrir að Michael Madsen hafi orðið þekktur fyrir hlutverk sín í kvikmyndum Quentin Tarantino, eins og Reservoir Dogs og Kill Bill: Vol. 2, segir Virginia að hún muni alltaf muna hann sem spaugsama stóra bróðurinn úr æsku.
„Ég mun sakna einkabrandaranna okkar, skyndilegs hlátursins, hljóðanna í honum,“ skrifaði hún að lokum. „Ég sakna drengsins sem hann var áður en hann varð goðsögn. Ég sakna stóra bróður míns. Þökkum öllum sem hafa sent ást og minningar. Með tímanum munum við deila upplýsingum um hvernig við ætlum að minnast lífs hans, en í bili höldum við hvort öðru nær og leyfum þögninni að segja það sem orðin ná ekki.“
Yfirlýsing Virginiu kom aðeins nokkrum klukkustundum eftir að umboðsmaður Madsens, Ron Smith, staðfesti andlát hans við NBC News.
„Á síðustu tveimur árum vann Michael Madsen að ótrúlegum sjálfstæðum kvikmyndaverkefnum, þar á meðal Resurrection Road, Concessions og Cookbook for Southern Housewives, og hann hlakkaði mikið til næsta kafla í lífi sínu,“ sagði í sameiginlegri yfirlýsingu frá umboðsmönnum hans, Susan Ferris og Ron Smith, ásamt fjölmiðlafulltrúanum Liz Rodriguez.
Þar kom einnig fram að Madsen var að undirbúa útgáfu nýrrar ljóðabókar, Tears For My Father: Outlaw Thoughts and Poems, sem nú er verið að fara yfir af ritstjórn.
Lögreglan var boðað á heimili Madsens í Malibu eftir að neyðarlínusímtal barst að morgni 3. júlí. Hann var úrskurðaður látinn á staðnum og Smith hefur staðfest að dánarorsökin hafi verið hjartastopp.
„Michael Madsen var einn af eftirminnilegustu leikurum Hollywood,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni. „Hans mun verða sárt saknað.“
Komment