
Marínó G. Njálsson, ráðgjafi og samfélagsrýnir skrifaði Facebook-færslu í gærkvöldi þar sem hann segir frá athugasemd sinni við færslu Egils Helgasonar fjölmiðlamanns, um grunsamlega tölfræði kosningu Eurovision-söngvakeppninnar í ár, líkt og í fyrra.
„Í athugasemd við færslu Egils Helgasonar um Eurovision skrifaði ég eftirfarandi:
"Tölfræðin segir að átt hafi verið við kosninguna bæði núna og í fyrra. Ég hef hins vegar ekki áhyggjur af úrslitum þessarar skrautsýningar, heldur að detti mönnum í hug að hagræða úrslitum hennar, hverju geta þeir áorkað með því að hagræða einhverju öðru?".“
Marínó birti því næst útskýringar sínar sem hann bætti við í athugasemdinni við færslu Egils. Nefnir hann fjóra punkta, óskiljanlegar sveiflur á milli stigagjafa dómnefnda og svo almennings, tölfræðilegan ómöguleika, aðför að lýðræði ríkja og þá staðreynd að ef tölvukerfi Evrópuríkja voru hökkuð, þá muni hakkararnir gera eitthvað alvarlegra í framtíðinni. Hér má lesa punktana í heild sinni:
„1. Tvö ár í röð hafa orðið óskiljanlegar sveiflur þar sem dómnefndir gefa engin stig meðan almenningur gefur 10 og 12 stig. Þetta hefur gerst áður, en ekki í því mæli sem var þessi tvö ár. Séu skoðaðar tíur og tólfur sem almenningur á að hafa gefið, þar sem dómnefndir gáfu engin stig, þá hefur fjöldi stiga sem þannig hefur fengist almennt verið undir 100. Á þessu eru fjórar undantekningar. Árið 2019 fékk Noregur 118 slík stig, 2022 fékk Úkraína líka 118 slík stig (Úkraína fékk 10 og 12 stig frá almenningi í öllum löndum það ár). Í fyrra fékk Ísrael 184 slík stig og 138 í ár. Látum það alveg liggja á milli hluta að slíkt gæti gerst einu sinni [í þessu mæli], en hjá sömu þjóð tvisvar í röð er tölfræðilega mjög, mjög ólíklegt, sérstaklega þegar haft er í huga hve mörg stigin eru. Úkraína var líka með flest slík stig árið 2021, en þau voru bara 54.
2. Hin hliðin á peningnum er, að í fyrra fékk Portúgal 139 stig frá dómnefnum en bara 13 stig frá almenningi. Lagið var almennt vinsælt og því hefði mátt búast við að það fengi t.d. stig frá almenningi á Spáni, sem það fékk ekki [sem er í fyrsta sinn á þessari öld]. Það lítur því út fyrir að talsverður hluti atkvæða almennings til portúgalska atriðisins hafi horfið. Í ár gerðist nokkuð sem hafði ekki gerst áður frá því að farið var að birta tölur almennings og dómnefnda sjálfstætt [árið 2016]. Atriði sem fékk yfir 100 stig frá dómnefndum fékk ekkert stig frá almenningi. Það sem meira er, að það fékk yfir 200 stig frá dómnefndum. Árið 2017 fékk Austurríki 93 stig frá dómnefndum án þess að fá eitt einast stig frá almenningi. En núna fékk Sviss 214 stig. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að slíkt er tölfræðilega nánast ómögulegt. Því er mun líklegra að átt hafi verið við atkvæðatölur almennings.
3. Þessi niðurstaða tvö ár í röð, er líklega til að láta svo líta út, að almenningi í Evrópu sé alveg sama um hernað Ísraela á Gasa og snerist ekki um að vinna keppnina, því ég er nokkuð viss um, að þá færi keppnin ekki aftur fram. Það er því verið að falsa almenningsálitið, sem er aðför að lýðræðinu í þessum löndum.
4. Ég hef ekki mestar áhyggjur af því, að tölum hafi verið hagrætt í keppninni, heldur eru þau kerfi sem notuð er hluti af mikilvægum innviðum samkvæmt tveimur NIS (netöryggis) tilskipunum. Kerfin eiga því að vera vel varin. Hafi hökkurum tekist að brjótast inn í þessi kerfi, þá eru þeir örugglega búnir að koma sér upp bakdyrum, sem hægt er að nota síðar. Til hvers þær verða notaðar í framtíðinni er það sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Að falsa úrslit í þessari keppni er smásálarlegt".“
Marínó segir síðan frá því að hann hafi í fyrra bent RÚV og CERT-ÍS á líklega hagræðingu stigagjafar í Eurovision og að Vodafone, sem er samskiptaaðilinn við EBU, hafi gripið til aðgerða og því séu ekki merki um að átt hafi verið við símaatkvæði hér á landi.
„Þegar ég sá hvernig stigin skiptust í fyrra, þá hafði ég samband við bæði RÚV og CERT-ÍS til að benda þeim á þessa mjög svo líklegu hagræðingu stigagjafar, sem gat ekki farið fram án þess að hakka mikilvæga innviði fjölmargra Evrópuríkja. Stefán Eiríksson tjáði mér að RÚV hafi látið Vodafone vita sem er síðan samskiptaaðilinn við EBU vegna kosninganna, en ég veit ekki hver urðu örlög ábendingar minnar til CERT-ÍS. Ég held að Vodafone hafi gripið til aðgerða hér á landi, því ekki eru merki um að átt hafi verið við atkvæði almennings á Íslandi í ár.“
Því næst segir Marínó frá því að í haust hafi aðilar frá EBU hafst samband og boðið honum að sækja um stöðu þar.
„Svo merkilega vildi til, að haft var samband við mig frá EBU í haust og mér boðið að sækja um stöðu Senior Information Security Officer, sem ég gerði. Komst því miður ekki í hóp þeirra sem tekin voru í viðtöl, því þá hefði ég notað tækifærið og vakið athygli á þessu.“
Að lokum segir Marínó áhyggjur sínar ekki snúast um að einhver vilji skemma Eurovision en bendir þó á að takist Ísrael að sigra Eurovision með vélabrögðum, sé keppnin dauð.
„Bara svo það sé á hreinu, þá snúa áhyggjur mínar ekki af því að einhver vilji eyðileggja Eurovision. Þarna er hins vegar verið að búa til falska ímynd af afstöðu Evrópubúa til hernaðar Ísraela á Gasa og það er verið að hakka kerfi sem teljast mikilvægir innviðir. Takist Ísrael að vinna Eurovision með svindli, þá drepa þeir keppnina. Svo einfalt er það.“
Komment