Tennis- og Badmintonfélag Reykjavíkur hefur hafið gjaldtöku á bílastæði við hús félagsins í Laugardalnum en hún hófst þann 14. nóvember.
Fyrirtækið Gulur bíll sér um gjaldtökuna en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu mun kosta 250 krónur að leggja við íþróttahúsið frá 7 til 17 á virkum dögum en 95 krónur á öðrum tímum. Þá er mögulegt fyrir meðlimi TBR að kaupa mánaðaráskrift en hún kostar 15 þúsund krónur og er 1.500 króna vanrækslugjald. Ekkert hámark gjalda er per sólarhring samkvæmt Gulum bíl.
Í hverfishóp Langholtshverfis, þar sem félagið er til húsa, er hafin umræða um málið en hingað til hafa fáir tjáð sig um það. „Sem iðkandi í TBR er þetta frábært. Loksins laus stæði fyrir þá sem eru að æfa badminton!“ skrifar ein kona í athugasemd um gjaldtökuna en samkvæmt upplýsingum Mannlífs hefur bílastæðið verið reglulega notað af íbúum nærliggjandi húsa og gestum Glæsibæjar sem eiga ekki erindi í TBR.
Mikil umræða hefur verið í gangi á árinu varðandi gjaldtöku á bílastæðum en sú umræða hefur mest megnis snúist í kringum ferðamannastaði á landinu.


Komment