
Súdanskar konur sem neyddust til að flýja höfuðborg Norður-Darfur, al-Fashir, um helgina lýsa hryllilegri reynslu sinni af sprengjuárásum og byssuskotum þegar þær reyndu að komast undan.
Borgin féll á sunnudag í hendur Rapid Support Forces (RSF), vígasveitum sem starfa sjálfstætt frá hernum, eftir 18 mánaða umsátur.
Að sögn sjónarvotta fóru RSF-liðar hús úr húsi í árásinni, börðu og skutu fólk, þar á meðal konur og börn.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að yfir 26.000 íbúar hafi náð að flýja borgina. Þeir komu örmagna og þyrstir til bæjarins Tawila, um 60 kílómetra vestur af al-Fashir.
Aðstæður í flóttamannabúðunum þar eru mjög erfiðar, þar dvelja þegar meira en 650.000 manns sem hafa verið hraktir á vergang vegna átaka. Fjölskyldur eru neyddar til að búa í bráðabirgðatjöldum á opnum svæðum, margar án allra eigna eftir að hafa verið rændar á flóttanum.
„Ég kom hingað berfætt, þau tóku jafnvel skóna mína,“ sagði Aisha Ismael, sem flúði borgina á laugardag.
Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því að þær hefðu fengið trúverðugar skýrslur um fjölda grimmdarverka, þar á meðal aftökur án dóms og laga og kynferðisofbeldi gegn konum og stúlkum.
Al-Fashir var síðasta höfuðborg Darfur-héraðanna fimm sem féll í hendur RSF, sem stjórnað er af hershöfðingjanum Mohammed Hamdan Daglo. Vígasveitir hans hafa háð stríð við súdanska herinn í meira en tvö ár, í baráttu um yfirráð í landinu sem Sameinuðu þjóðirnar telja hafa kostað yfir 40.000 manns lífið.
Stríðið hefur jafnframt valdið versta mannúðarkrísu heims, þar sem hungursneyð ríkir nú á stórum svæðum landsins, þar á meðal í al-Fashir.
Meira en 14 milljónir manna hafa flúið heimili sín, bæði innanlands og til nágrannaríkja.
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (ICC) rannsakar nú bæði RSF og súdanska herinn vegna meintra stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyninu sem framdir hafa verið í átökunum.

Komment