
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sést haldandi á miða með verðupplýsingum á Teslu þar sem hann stóð við hlið borgaralega klædds Elon Musk á lóð Hvíta hússins í gær. Mynd af miðanum í hönd Trumps hefur gengið um netið.
Trump kennir „öfgafullum vinstri geðsjúklingum“ um fall Teslu í kauphöllinni síðustu mánuði. Virði Teslu í bandarísku kauphöllinni er hins vegar ekki verra en svo að það er jafnhátt og það var fyrir bandarísku forsetakosningarnar í nóvember í fyrra. Í kosningabaráttunni styrkti Musk Trump um 288 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir 39 milljörðum íslenskra króna. Eftir kosningarnar jókst trú fjárfesta á Teslu með þeim hætti virði félagsins rúmlega tvöfaldaðist.

Með Musk sér við hlið á lóð Hvíta hússins lýsti hann Teslu S og Cybertruck gullfallegar bifreiðar og hrósaði þar sérstaklega þeim síðarnefnda. „Um leið og ég sá hann sagði ég: Þetta er hin flottasta hönnun,“ sagði Trump í gær.
„Mér líkar við þennan og ég vil fá hann í sama lit,“ sagði Trump og hét því að kaupa sér Teslu.
Í dag sagði Trump á samfélagsmiðli sínum að nú hefði átt sér stað „ólöglegt samsæri um sniðgöngu“ á Teslu.
Eftir stöðugt fall síðustu daga hækkaði gengi Teslu í kauphöllinni í gær.
Komment