Uppnám hefur verið í Tyrklandi, bandalagsríki Íslands, í gærkvöldi og í dag, vegna reiði íslamista og forseta landsins yfir teikningu af því sem þeir segja vera spámaðurinn Múhammeð í háðslegu samhengi.
Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseti fordæmdi í dag háðsádeilutímarit eftir ásakanir um að það hefði birt teikningu af spámanninum Múhameð, og kallaði það „viðbjóðslega ögrun“.
„Þetta er augljós ögrun dulbúin sem húmor, viðbjóðsleg ögrun,“ sagði hann reiðilega og fordæmdi það einnig sem „hatursglæp“.
„Þeir sem sýna spámanninum okkar og öðrum spámönnum vanvirðingu munu sæta ábyrgð fyrir lögum.“
Um 300 mótmælendur öskruðu skammaryrði gegn tímaritinu og hrópuðu: „Gleymið ekki Charlie Hebdo“, í tilvísun til árásarinnar í París árið 2015 þegar íslamskir byssumenn drápu 12 manns eftir að tímaritið hafði birt skopmyndir af spámanninum Múhameð.
„Niður með veraldarhyggju, upp með sharía! Jihad, jihad, píslarvætti!“ hrópuðu þeir í átökum við lögreglu sem beitti táragasi og gúmmíkúlum.

LeMan, vikulegt háðstímarit, hefur alfarið hafnað ásökununum. Ritstjóri þess sagði við AFP að myndin hefði „ekkert með spámanninn Múhameð að gera“.
„Í þessu verki er nafni múslima, sem féll í loftárásum Ísraels, gefið hið skáldaða nafn Múhameð. Meira en 200 milljónir manna í íslamska heiminum bera nafnið Múhameð,“ sagði hann.
Teikningin sem vakið hefur deilur sýnir tvær persónur svífa yfir borg sem er undir loftárásum.
„Salam aleikum, ég heiti Múhameð,“ segir annar og réttir fram hönd. Hinn svarar: „Aleikum salam, ég heiti Musa.“
Erdoğan sagði yfirvöld hafa lagt hald á öll eintök útgáfunnar sem í hlut átti og gripið til lögregluaðgerða gegn tímaritinu – aðeins nokkrum klukkustundum eftir að fjórir háttsettir starfsmenn þess voru handteknir og handtökuskipun gefin út á hendur nokkrum til viðbótar.
Í nótt birti innanríkisráðherrann Ali Yerlikaya myndir af handtöku teiknarans, grafísks hönnuðar tímaritsins, útgefanda og annars starfsmanns þar sem þeir voru teknir af hörku – sem leiddi til gagnrýni frá tyrknesku mannréttindasamtökunum MLSA.
„Að handtaka teiknara og beita þá harðræði vegna meintrar ‘móðgunar á trúarlegum gildum’ vegna teikningar er ólögmætt,“ skrifaði einn stjórnenda samtakanna, Veysel Ok, á X.
„Jafnvel þótt mynd eða yfirlýsing sem er án ofbeldis særi eða ögri stórum hluta samfélagsins, er hún samt varin af tjáningarfrelsinu.“
LeMan var stofnað árið 1991 og er þekkt fyrir pólitískar háðsádeilur sínar.
Komment