
Upplýsingaskrifstofa stjórnvalda á Gaza hefur birt tölur sem sýna að á síðustu 30 dögum hafi að meðaltali aðeins 88 hjálparflutningabílar á dag verið hleyptir inn í svæðið, frá því Ísrael tilkynnti 27. júlí að leyfa ætti innflutning hjálpargagna aftur.
Alls fóru 2.654 bílar inn á tímabilinu, sem er aðeins um 15 prósent af því sem raunverulega þarf, að sögn yfirvalda á Gaza. Þau benda á að til að uppfylla lágmarksþarfir íbúa þurfi að minnsta kosti 500 til 600 bíla á dag. Til samanburðar segist COGAT, ísraelska stofnunin sem fer með eftirlit á innflutningi, leyfa 300–400 bíla á dag. Þeim tölum er þó mótmælt, ekki aðeins af palestínskum yfirvöldum og Sameinuðu þjóðunum heldur einnig af opinberum ísraelskum gögnum.
Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, hefur varað við því að hungursneyð muni halda áfram að breiðast út nema magn hjálpargagna verði aukið stórlega.
Á sama tíma fullyrðir upplýsingaskrifstofa Gaza að Ísrael hafi bannað innflutning á 430 tegundum af grunnmatvælum og næringarefnum sem sérstaklega eru nauðsynleg börnum, sjúkum og vannærðum. Á bannlistanum eru meðal annars egg, rautt kjöt, kjúklingur, fiskur, ostur, mjólkurvörur, ávextir, grænmeti, næringardrykkir og bætiefni fyrir þungaðar konur og sjúklinga.
„Gaza þarf meira en 600 hjálparbíla á dag til að mæta grunnþörfum 2,4 milljóna íbúa, en afhendingar eru langt undir því marki,“ segir í yfirlýsingu upplýsingaskrifstofunnar. Þar er einnig fullyrt að innviðir svæðisins hafi hrunið nær algjörlega vegna stríðsins og áréttað að Ísrael og bandamenn þess beri fulla ábyrgð á mannúðarkrísunni.
Stjórnvöld á Gaza hvetja Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðasamfélagið til að bregðast þegar í stað við, tryggja að landamærin verði opnuð og að matvæli, mjólkurduft fyrir ungbörn og lyf komist til íbúanna án tafar.
Komment