
Hvíta húsið dró í dag til baka tilnefningu á lækni sem Donald Trump hafði tilnefnt til að stýra bandarísku Sóttvarnastofnuninni rétt áður en áætlað var að hann kæmi fyrir öldungadeildina.
Læknirinn og fyrrverandi þingmaðurinn frá Flórída, David Weldon, hefur lengi lýst yfir áhyggjum af aukaverkunum bólusetninga og haldið fram kenningu um tengsl milli bóluefna og einhverfu.
Þessi ákvörðun kemur á sama tíma og mislingafaraldur hefur leitt til dauða tveggja einstaklinga og sýkt meira en 250 manns í Texas og Nýju-Mexíkó en mikill meirihluti þeirra eru óbólusettir
Öldungadeildarnefnd sem átti að fjalla um tilnefningu hans sendi frá sér yfirlýsingu nokkrum mínútum áður en yfirheyrslan átti að hefjast.
„Eftir að tilnefning Dr. David Weldon til að verða yfirmaður Sóttvarnastofnunarinnar var dregin til baka fellur niður yfirheyrsla nefndarinnar,“ sagði í yfirlýsingu nefndarinnar.
Weldon sagði við New York Times að hann hefði fengið símtal frá embættismanni Hvíta hússins á miðvikudagskvöld þar sem honum var tjáð að „þeir hefðu ekki næg atkvæði til að staðfesta“ tilnefningu hans.
Sem þingmaður Repúblikana var Weldon meðflutningsmaður frumvarps árið 2007 sem aldrei var samþykkt og átti að stofna sjálfstæða stofnun til að rannsaka öryggi bóluefna, þar sem hann hélt því fram að bandaríska Sóttvarnastofnunin hefði hagsmuna að gæta í málinu.
Hann vakti einnig athygli á „mögulegum tengslum milli kvikasilfursins í rotvarnarefninu thimerosal og fjölgunar taugafræðilegra þroskaraskana, þar á meðal einhverfu, hjá börnum.“
Thimerosal var fjarlægt úr barnabóluefnum í Bandaríkjunum árið 2001 og samkvæmt Stóttvarnarstofnun Bandaríkjanna „eru engar vísbendingar um skaðsemi af lágum skömmtum af thimerosal í bóluefnum, nema vægar aukaverkanir eins og roði og bólga á stungustað.“
Bandaríska heilbrigðisráðuneytið, sem fer með stjórn Sóttvarnastofnunarinnar, er nú undir forystu Robert F. Kennedy Jr. sem er vinur Weldons og einnig efins gagnvart bóluefnum.
Samkvæmt New York Times var Kennedy sagður „mjög ósáttur“ við ákvörðunina um að draga tilnefningu Weldons til baka.
Komment