
Stjórn Ungra umhverfissinna hvetur Jóhann Pál Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, til að standa við kosningaloforð sitt og ríkisstjórnarinnar um að banna olíuleit og vinnslu jarðefnaeldsneytis í íslenskri lögsögu.
Í opnu bréfi segir að afstaða ráðherra, sem nýlega sagði að ríkisstjórnin hygðist hvorki ýta undir né banna olíuleit, sé ekki hlutlaus. Hún viðhaldi möguleikum á starfsemi sem gangi gegn loftslagsmarkmiðum Íslands, skuldbindingum samkvæmt Parísarsamkomulaginu og náttúruvernd.
„Loftslagsráðherra á að vera í fararbroddi loftslagsbaráttunnar. Við eigum að standa við skuldbindingar okkar og leiða Ísland inn í framtíðina, ekki gefa kost á iðnaði sem ýtir undir loftslagsbreytingar og grefur undan trúverðugleika landsins á alþjóðavettvangi,“ segir í yfirlýsingunni.
Ungir umhverfissinnar minna á að Alþjóðadómstóllinn (ICJ) hafi nýlega bent á að ríki sem styðji áfram framleiðslu jarðefnaeldsneytis eða leyfi olíuleit geti gerst brotleg við alþjóðalög.
Samtökin krefjast þess að sett verði skýrt og óafturkræft bann við olíuleit, að orkuskipti verði leidd áfram með áherslu á sjálfbæra orku og að Ísland standi við eigin og alþjóðlegar skuldbindingar „án undanbragða“.
Undir ákallið skrifar stjórn Ungra umhverfissinna:
Laura Sólveig Lefort Scheefer, forseti, Snorri Hallgrímsson, varaforseti, Sigurlaug Eir Beck Þórsdóttir, gjaldkeri, Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruverndarfulltrúi, Ida Karólína Harris, loftslagsfulltrúi, Antonia Hamann, hringrásarfulltrúi og Julien Nayet-Pelletier, fræðslufulltrúi.
Komment