
Palestínskur unglingur lést af sárum sem hann hlaut í hernaðaraðgerð ísraelska hersins í Askar-flóttamannabúðunum í Nablus. Atvikið er hluti af sívaxandi ofbeldi gegn óbreyttum borgurum á hernumda Vesturbakkanum, á sama tíma og brothætt vopnahlé á Gaza-ströndinni veitir Palestínumönnum litla hvíld í rústum sprengdra hverfa.
Wafa-fréttastofan greinir frá því að hinn átján ára gamli Mohammed Ahmed Abu Haneen hafi látist í morgun af sárum sem hann hlaut í árás herliðsins.
Ísraelskar hersveitir réðust einnig inn í bæinn Aqaba, norðan við Tubas á Vesturbakkanum, og handtóku nokkra aðila fyrr í dag. Áður höfðu verið gerðar handtökur í Hebron og Tal.
Í yfirlýsingu ísraelska hersins segir að 44 Palestínumenn hafi verið handteknir á hernumdu svæðunum síðustu viku. Aðgerðirnar hafi verið framkvæmdar víða um svæðið og allir handteknir séu eftirlýstir af Ísrael. Einnig hafi verið lagt hald á vopn og farið í yfirheyrslur í tengslum við aðgerðirnar.
Í síðustu viku var tíu ára drengur, Mohammad al-Hallaq, skotinn til bana af ísraelskum hermönnum þegar hann lék sér í fótbolta í ar-Rihiya, í Hebron-héraði.
Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hafa meira en 1.000 Palestínumenn verið drepnir af herliðinu eða landræningjum frá 7. október 2023 á Vesturbakkanum, þar á meðal í Austur-Jerúsalem.
Fimmtungur fórnarlambanna eru börn, þar á meðal 206 drengir og sjö stúlkur, að sögn SÞ. Þá eru meðal hinna látnu 20 konur og að minnsta kosti sjö fatlaðir einstaklingar. Tölurnar taka ekki til Palestínumanna sem hafa látist í haldi Ísraels á sama tímabili.
Samkomulag um vopnahlé á Gaza-ströndinni í umsjón Bandaríkjastjórnar hefur leitt til þess að nær 2.000 palestínskir fanga hafa verið látnir lausir úr ísraelskum fangelsum, margir þeirra með sýnileg ummerki um misþyrmingar.
Tugir líka Palestínumanna sem hafa verið afhent fjölskyldum sínum hafa borið merki um alvarlegar limlestingar og framkvæmd henginga eða aftaka, að sögn heimilda.
Á sama tíma og herinn eykur átak sitt gegn Palestínumönnum, halda landræningjar áfram ofbeldi sínu nálægt Ramallah, þar sem palestínskt eignarhald og mannvirki eru eyðilögð nánast daglega án afskipta yfirvalda og undir vernd hersins.
Að sögn Wafa kveiktu landnemar í nokkrum palestínskum ökutækjum á svæði í Deir Dibwan, austur af Ramallah, aðfaranótt föstudags. Þá réðust þeir einnig á palestínska bændur sem voru að tína ólífur í landi þorpsins Beit Iksa, norðvestur af Jerúsalem.
Á sunnudag réðst ísraelskur landræningi grimmilega á palestínska konu í Turmus Aya þegar hún var að safna ólífum.
Afaf Abu Alia, 53 ára, hlaut heilablæðingu vegna árásarinnar.
„Árásin hófst með um tíu landræningjum, en stöðugt fleiri bættust við,“ sagði palestínskur sjónarvottur við Al Jazeera. „Að lokum voru þeir líklega um 40 talsins, verndaðir af hernum. Við vorum mun færri og gátum ekki varið okkur.“
Samkvæmt upplýsingum frá Mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (OCHA) hafa landræningjar ráðist á Palestínumenn nærri 3.000 sinnum á síðustu tveimur árum á hernumdu Vesturbakkanum.
Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) sagði á föstudag að frá 7. október 2023 hafi „hertekni Vesturbakkinn, þar á meðal Austur-Jerúsalems, markast af miklu og ört vaxandi ofbeldi“.
„Innlimun Vesturbakkans heldur áfram með stöðugum hætti sem er gróft brot á alþjóðalögum,“ sagði UNRWA, með vísan til útþenslu og viðurkenningar ólöglegra landnáma.

Komment