
Karen Kjartansdóttir, almannatengill og fyrrverandi fjölmiðlakona, gagnrýndi í gær harðlega það sem hún kallar „nýstalínisma“ í pólitískri umræðu í færslu sem hún birti á Facebook og Mannlíf fjallaði um. Þar lýsti hún hugmyndafræði sem að hennar mati einkennist af foringjadýrkun, valdhyggju og því að staðreyndir víki fyrir hollustu við vald og leiðtoga.
Í morgun skrifaði Karen aðra færslu þar sem hún segir frá fyrri pistli sínum um þetta fyrirbæri og að fjölmiðill (Mannlíf) hafi síðar tekið pistilinn upp og birt hann á vef sínum og á Facebook. Í kjölfarið hafi umræðan tekið nákvæmlega þá stefnu sem pistillinn fjallaði um.
„Og þá gerðist nákvæmlega það sem pistillinn fjallaði um.
Prótótýpurnar mættu,“ skrifar Karen.
Að hennar sögn snerist umræðan ekki um myndskeið, vitnisburði eða staðreyndir heldur um að leiðrétta hana sjálfa. Hún segir að gagnrýnendur hafi ekki efast um frásögn valdhafa heldur einfaldlega aðlagað skynjun sína að nýjustu útgáfu frásagnarinnar.
„Ekki til að ræða myndskeið, vitni eða staðreyndir, heldur til að leiðrétta mig. Ég væri með rangfærslur í garð hins mikla leiðtoga. Hann hafi aldrei sagt að konan hafi ekið yfir ICE-liða, heldur bara reynt það. Enginn virtist hafa horft á myndböndin. Enginn virtist hafa lesið orð leiðtogans. Enginn spurði sig hvort fullyrðingarnar stæðust. Skynjunin var einfaldlega uppfærð í rauntíma, í takt við nýjustu útgáfu frásagnarinnar.“
Í færslunni vitnar Karen orðrétt í yfirlýsingu Donalds Trump Bandaríkjaforseta vegna atviksins, sem hún segir að standist ekki myndskeið sem hafi farið í dreifingu.
„The woman driving the car was very disorderly, obstructing and resisting, who then violently, willfully, and viciously ran over the ICE Officer, who seems to have shot her in self defense,“ segir í yfirlýsingu Trumps, sem Karen birtir orðrétta.
Hún bendir á að forsetinn segi ekki að konan hafi reynt að aka á lögreglumann heldur fullyrði að hún hafi ekið yfir hann, þvert á það sem sjáist á upptökum.
„Myndskeiðið sýnir annað. Það vita allir sem hafa horft á það. En það skiptir ekki máli í þessu kerfi,“ skrifar hún og segir að í þeirri hugsun sem hún lýsir sé það dyggð að hafna eigin skynjun til að sýna hollustu.
Karen segir að í slíkum kerfum færist umræðan frá sjálfu ofbeldinu yfir í að ráðast á gagnrýnina sjálfa.
„Umræðan færist frá morðinu yfir í meintan skaða gagnrýninnar. Vandinn er ekki ofbeldið, heldur þeir sem neita að samþykkja frásögnina.“
Hún gagnrýnir jafnframt notkun á vafasömum „heimildum“ í umræðunni og segir að þar sé ekki um upplýsingaleit að ræða heldur trúariðkun.
„Þetta er ekki upplýsingaleit. Þetta er trúariðkun. En á trú sem býr ekki yfir neinni visku. Hún leitast ekki við að skilja heiminn, aðeins við að verja fyrir fram ákveðna frásögn.“
Að lokum varar Karen við þróun sem hún segir leiða til þess að lög og staðreyndir víki fyrir hreinu valdi.
„Fasismi er ekki hægristefna um lög og reglu. Hann er kerfi þar sem lögin eru leyst upp í valdi. Og þegar fólk lærir að leiðrétta eigin skynjun samstundis eftir því hvað foringinn segir, þá er ekki lengur verið að verja samfélagið. Þá er verið að verja vald sem hefur þegar ákveðið að staðreyndir skipti ekki lengur máli.“
„Og það var einmitt það sem pistillinn fjallaði um,“ segir Karen að lokum.

Komment