
Samkvæmt nýju frumvarpi atvinnuvegaráðherra, Hönnu Katrínar Friðriksson, er gert ráð fyrir að veiðigjald verði áætlað um 19,5 milljarðar króna árið 2026. Þegar frítekjumark er tekið með í reikninginn má búast við að ríkið fái um 17,3 milljarða í tekjur af gjaldinu.
Frumvarpið, sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi, miðar að því að breyta útreikningi á aflaverðmæti í veiðigjaldi. Markmiðið er að gjaldið endurspegli betur raunverulegt verðmæti veiðanna og tryggi sanngjarnt gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar, að því er segir á vef Stjórnarráðsins.
Frumvarpið fór í samráðsgátt 25. mars og bárust 112 umsagnir, flest jákvæðar. Nokkur sveitarfélög höfðu þó athugasemdir sem leiddu til breytinga á frumvarpinu.
Helsta breytingin snýr að frítekjumarki. Fyrir flestar tegundir verður það 40% af fyrstu 9 milljónum króna í álagningu á ári. Fyrir þorsk og ýsu er frítekjumarkið hærra, 40% af fyrstu 50 milljónum króna. Með þessu á að draga úr áhrifum hærra veiðigjalds á minni og meðalstór útgerðarfyrirtæki.
Í frumvarpinu hefur einnig verið bætt við greiningum á áhrifum þess á um 100 stærstu fyrirtæki greinarinnar, áhrif á skattlagningu og samanburði við verðmyndun í Noregi.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa gagnrýnt frumvarpið fyrir skort á vandaðri undirbúningsvinnu og áhrifamati.
Samkvæmt frumvarpinu gætu tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi fyrir uppsjávartegundir aukist um 3-4 milljarða og um 5-6 milljarða fyrir þorsk og ýsu. Áætlað er að álagt veiðigjald verði um 19,5 milljarðar árið 2026, en hefði verið 11,2 milljarðar samkvæmt núgildandi lögum.
Á árunum 2027 til 2030 er gert ráð fyrir að veiðigjald verði á bilinu 18-19 milljarðar á ári. Tölurnar eru þó háðar óvissu þar sem þær byggjast meðal annars á loðnukvóta og afkomu fyrirtækja.
Komment