
Vilhjálmur Bretaprins hélt aftur af tárum þegar hann ræddi áhrif sjálfsvíga við konu, sem missti eiginmann sinn er hann framdi sjálfsvíg. Samtalið er úr stuttmynd sem birt var af skrifstofu breska konungsfjölskyldunnar í dag, í tilefni af Alþjóðadegi geðheilbrigðis.
Í myndbandinu ræðir erfingi krúnunnar við Rhian Mannings, en eiginmaður hennar Paul tók eigið líf fimm dögum eftir skyndilegt andlát ungs sonar þeirra George af veikindum árið 2012. Samtalið fór fram heima hjá Rhian í Cardiff. Þau ræða nauðsyn þess að betri stuðningur sé til fyrir þá sem hafa misst einhvern eða orðið fyrir áhrifum sjálfsvíga.
William verður greinilega tilfinningalega snortinn þegar hann spyr Mannings, sem stofnaði hjálparsamtökin 2wish til að styðja fólk sem hefur upplifað skyndilegan missi barns eða unglings, hvað hún myndi vilja segja við eiginmann sinn:
„Ég myndi bara vilja setjast niður með honum og segja: „Af hverju komst þú ekki til mín?“ Því hann hefur misst af svo mikilli gleði, og við hefðum verið í lagi. Og það er það sem er erfiðast, við hefðum verið í lagi,“ sagði hún við prinsinn, sem reynir þá að halda aftur tárum.
„Er allt í lagi?“ spyr Mannings hann.
„Fyrirgefðu,“ svarar Vilhjálmur. „Það er bara erfitt að spyrja þessara spurninga sem ég…“
„Nei, það er allt í lagi. Þú átt börn … Það er erfitt … Og þú hefur upplifað missi sjálfur.“
Á síðasta ári var Vilhjálmur meðal syrgjenda við jarðarför Thomas Kingston, tengdasonar Mikaels, prins af Kent, frænda Elísabetar Bretlandsdrottningar heitinnar, en hann tók sitt eigið líf eftir að hafa orðið fyrir aukaverkunum lyfja.
Myndbandið var gefið út í tengslum við stofnun Forvarnarnets gegn sjálfsvígum (National Suicide Prevention Network) af Royal Foundation, góðgerðarsamtökum Vilhálms og eiginkonu hans, Katrínar, sem mun leggja áherslu á að skilja orsök sjálfsvíga og veita aðgengilegan stuðning.
Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg
Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.
Komment