
Eigendur World Class í Laugum hafa notið þess að hafa aðgang að ókeypis bílastæðum í eigu Reykjavíkurborgar í tvo áratugi. Nú segjast þau eiga bílastæðin vegna þess og vilja fá borgað fyrir að borgin noti þau í annað.
Lögmenn á vegum Björns Leifssonar, bróður hans og eiginkonu, sem eiga líkamsræktarkeðjuna World Class, hafa sent andmæli við tillögu Reykjavíkurborgar í drögum að aðalskipulagi um breytta nýtingu á bifreiðastæðum í Laugardal, við Laugardalsvöll. Bílastæðin sem um ræðir eru í meira en 200 metra fjarlægð frá World Class í Laugum.
Samkvæmt tillögu borgarinnar verður lítil breyting þó svo að hluti bílastæða við Laugardalsvöll, sem liggur lengst frá World Class í Laugum, verði lagður undir skólaþorp, eins og segir í tillögu að aðalskipulagi: „Svæðið er í dag að mestu leyti bílastæði sem þjónar þjóðarleikvanginum og verður því lítið rask á núverandi landnýtingu.“
Þessu eru eigendur World Class ósammála og telja að bílastæðin þjóni þeim og þeirra viðskiptavinum.
Björn vill koma í veg fyrir að bílastæðin við Laugardalshöll verði notuð fyrir skólaþorp, þar sem gestir World Class í Laugum þurfi að nota þau og það geti valdið tekjutapi ef svo verði ekki áfram. Í kröfum lögfræðinga hans koma fram andmæli við að bílastæðin við Laugardalsvöllinn „sem m.a. hefur verið notað undir bifreiðastæði gesta líkamsræktarstöðvar World Class, verði framvegis nýtt fyrir grunnskóla“. Telur hann að World Class hafi öðlast „óbeinan eignarrétt“ með því að hafa fengið að nota stæðin í tvo áratugi „ótímabundið og endurgjaldslaust“.
Þá skiptir engu að enn verða á fjórða hundrað stæða beint fyrir utan Laugardalsvöll og til viðbótar stæði sem liggja næst stöð World Class í Laugum.
Skólaþorp þar sem er bílastæði
Í bréfi frá lögfræðingi Björns og World Class kemur fram að þau séu með samningsbundinn rétt til stæðanna.
Fyrir rúmum aldarfjórðungi - Þann 22. júlí árið 1999 - undirritaði borgin viljayfirlýsingu um stæðin og þar var því heitið að stæðin yrðu framvegis nýtt fyrir gesti innisundlaugar og heilsuræktarstöð World Class og voru undirritaðir samningar bindandi um stæðin milli umbjóðanda Björns og borgarinnar þann 24. apríl árið 2002 og 26. nóvember 2002 sama ár.
Kemur fram í bréfinu að í 4. grein samninganna var Birni veitt „ótímabundin og endurgjaldslaus afnot“ af ómerktum almennum bifreiðastæðum við Laugardalslaug og Laugardalsvöll, fyrir gesti stöðvarinnar, en rekstur heilsuræktarstöðvar World Class hófst í Laugardalnum skömmu síðar, árið 2004 og allt frá þeim tíma hafa viðskiptavinir World Class haft óhefta og endurgjaldslausa afnot af stæðunum.
Einnig segir að áðurnefnd stæði hafa verið nýtt í framkvæmd með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í samningunum, í yfir tvo áratugi.
Að mati Björns og hans lögfræðinga mun fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi fela í sér verulegaa skerðingu á eignaréttindum hans, þó bílastæðin séu við íþróttaleikvang í opinberri eigu. „Í 72. gr. stjórnarskrár segir að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, til þess þurfi lagafyrirmæli og fullt verð komi fyrir. Fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi felur í sér verulega skerðingu á eignaréttindum umbjóðanda okkar. Þá er fyrirsjáanlegt að breytingin mun valda umbjóðanda okkar fjártjóni. Gestum mun fækka með fækkun bifreiðastæða og tekjur dragast saman,“ segir í lögfræðibréfinu frá Laugum ehf.

Segja hættulegt að minnka aðgengi að bílastæðinu
Segir í tillögum Reykjavíkurborgar að eingöngu verði opin ein innkeyrsla á bifreiðastæðið, að norðanverðu, en innkeyrslu á bifreiðastæðið að sunnanverðu verði lokað.
Mótmæla lögmenn World Class einnig þessum fyrirætlunum og tiltekið er að um sé að ræða svæði er þúsundir gesta sækja, til að mynda þegar stærri viðburðir eru á Laugardalsvelli og ef margir yfirgefa svæðið á sama tíma geti skapast örtröð ef einungis er hægt að keyra út af því á einum stað og slíkt rýrir í senn upplifun gesta af því að sækja viõburði og getur beinlínis verið hættulegt, til dæmis ef sjúkrabílar eða viðbragðsaðilar þurfi að komast til og frá svæðinu.
Björn og meðeigendur hans leggjast því eindregið gegn því að lokuð verði innkeyrslu sunnanmegin að svæðinu.
Hagnast um 900 milljónir króna
Laugar ehf, sem reka World Class stöðvarnar, hafa notið þess að geta boðið gestum sínum aðgang að almenningssundlaugum samhliða notkun á líkamsræktarstöðvunum, sem eru í einkaeigu. Það á meðal annars við Laugardalslaug, Lágafellslaug í Mosfellsbæ, og Seltjarnarneslaug.
Á síðasta birta rekstrarári, árið 2023, högnuðust Laugar um 665 milljónir króna eftir skatt. Það segir ekki alla söguna, því Laugar leigja húsnæði af félagi í sama eignarhaldi, sem hagnaðist um 235 milljónir króna til viðbóta. Það er ekki allt og sumt, því annað félag, í eigu Hafdísar Jónsdóttur og Björns Leifssonar, hagnaðist um 15 milljónir króna í fyrra með leigutekjum frá World Class.
Komment