
Vopnaður maður sem sagðist vera lögreglumaður var tekinn í hald af alríkisyfirvöldum í gær og ákærður af yfirvöldum í Arizona eftir að hann sást þar sem halda á minningarathöfn um Charlie Kirk, sem myrtur var á dögunum.
Samkvæmt Arizona Department of Public Safety (DPS) var hinn 42 ára Joshua Runkles handtekinn og færður í fangelsi Maricopa-sýslu eftir að hann sýndi af sér „grunsamlega hegðun“ síðdegis í gær við State Farm leikvanginn í Glendale í Arizona, þar sem minningarathöfnin um Kirk fer fram á sunnudag.
DPS í Arizona og leyniþjónustan staðfesta að þegar umboðsmenn leyniþjónustunnar nálguðust hann hafi maðurinn sagt þeim að hann væri vopnaður og sagst jafnframt vera lögreglumaður. Yfirvöld segja hann þó ekki tengdan neinni lögreglu.
Hann hefur verið ákærður fyrir að þykjast vera lögreglumaður, og auk þess fyrir minni háttar brot, að bera vopn á bannsvæði.
Óljóst er hvers vegna hann var á svæðinu þar sem minningarathöfn um Kirk á að fara fram, með vopn, en leyniþjónustan segir að málið sé til rannsóknar í samvinnu við staðbundin lögregluyfirvöld.
Charlie Kirk verður heiðraður á morgun af fjölda áhrifamikilla einstaklinga, þar á meðal Donald Trump forseta og Vance varaforseta, og er líklegt að atvikið auki áhyggjur af öryggi við athöfnina.
Komment