
Willum Þór Þórsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að bjóða sig fram til forseta ÍSÍ en hann greindi frá ákvörðun sinni á Facebook fyrr í dag. Willum náði ekki sæti á Alþingi í kosningum í haust og var stuttu eftir það orðaður við forsetaembætti ÍSÍ.
Willum hefur mikla reynslu úr íþróttaheiminum og hefur orðið margsinnis Íslandsmeistari í knattspyrnu karla sem þjálfari. Eftir þjálfaraferilinn snéri hann sér að þingmennsku árið 2013. Þá keppti hann í handbolta og knattspyrnu á sínum yngri árum með góðum árangri. Kosið verður um forseta ÍSÍ miðjan maí á ársþingi sambandsins.
„Kæru vinir.
Framundan er íþróttaþing ÍSÍ. Það liggur fyrir að Lárus Blöndal lætur af störfum sem forseti eftir lofsvert áratuga framlag.
Ég hef alist upp við íþróttir og kynnst íþróttum frá mörgum hliðum, í seinni tíð sem foreldri og á vettvangi stjórnvalda og er meðvitaðri um gildi íþrótta og samfélagslegt mikilvægi.
Ég hef eftir allmikla ígrundun, fjölmargar áskoranir og góða hvatningu, sem mér þykir afar vænt um, ákveðið að bjóða mig fram til forseta ÍSÍ.
Bjóða þannig fram krafta mína til starfa fyrir íþróttahreyfinguna með öllu því góða fólki, sem vinnur að framgangi og vegsauka íþrótta, forvarna og lýðheilsu, um allt land alla daga,“ skrifaði þingmaðurinn fyrrverandi um framboð sitt.
Komment