
Rússneskir hermenn á víglínunni í Úkraínu deyja ekki aðeins í átökum við úkraínska hermenn, margir eru drepnir af eigin yfirmönnum.
Í nýrri rannsókn fjölmiðilsins Verstka voru greindir 101 hermenn sem grunaðir eru um að hafa tekið þátt í svokölluðum “núllstillingum”, vettvangsaftökum innan rússneska hersins.
Á þeim hvíla grunsemdir um að hafa pyntað menn til dauða, skotið þá eða sent í sjálfsmorðsárásir sem refsingu fyrir “óhlýðni” eða fyrir að neita að berjast. Fjölmiðillinn Meduza tók saman helstu niðurstöður Verstka og er þessi frétt byggð á þeirri umfjöllun.
Hvað eru „núllstillingar“?
Verstka hefur tekið saman gagnagrunn yfir rússneska hermenn sem sakaðir eru um að hafa myrt félaga sína í hernum. Þessar samanteknu aftökur eru í hernaðarorðræðu nefndar „núllstillingar“ (обнуление), og þeir sem framkvæma þær eru kallaðir „núllarar“.
Í gagnagrunninum eru nú 101 nöfn. Af þeim eru 79 staðfest með a.m.k. tveimur óháðum heimildum.
Verstka segir að 22 nöfn séu enn óstaðfest, en gagnagrunnurinn verði stöðugt uppfærður eftir því sem ný gögn berast.
Nánast allir staðfestu einstaklingarnir eru yfirmenn af mismunandi stigum.
Í flestum tilvikum hefur Verstka aflað upplýsinga um nöfn, stöðu, einingar og jafnvel mynda þeirra.
Einungis örfáir hafa sætt refsimeðferð. Heimildarmaður innan aðalherlögreglustofu Rússlands sagði að óformlegt bann væri við því að rannsaka yfirmenn sem taka þátt í Úkraínustríðinu, slíkar rannsóknir gætu „haft neikvæð áhrif á hernaðaraðgerðir“.
Sami heimildarmaður sagði að á fyrstu sex mánuðum ársins 2025 hafi skrifstofa aðalherlögreglunnar fengið nær 29.000 kvartanir, þar af yfir 12.000 sem tengjast morðum innan hersins.
Þessar skrár, auk viðtala við hermenn, fjölskyldur þeirra og efni úr Telegram-rásum, mynduðu grunninn að rannsókn Verstka.
Hvernig aftökurnar fara fram
Innan rússneska hersins taka þessar aftökur á sig ýmsar myndir, allt frá pyntingum til dauða, beinum morðum eða því að menn séu sendir óvopnaðir í sjálfsmorðsárásir.
Pyntingar
Hermenn sem sakaðir eru um „brot“ eru oft látnir dúsa í kjöllurum eða gryfjum þar sem þeir fá hvorki vott né þurrt og eru barðir margoft á dag, segir hermanninn Júrí, sem þjónaði í 114. vélbyssusveitinni.
Sumir deyja í gryfjunum, aðrir eru neyddir til að drepa félaga sína.
Í myndbandi sem birtist í maí 2025 sjást tveir hálfberir menn berjast á meðan rödd segir utan myndar:
„[Yfirmaðurinn] Kama sagði að sá sem ber hinn til dauða kemst út úr gryfjunni.“
„Kama“ er hernafnið á Aynur Sharifullin, yfirmanni í 114. sveitinni. Hann er þriggja barna faðir frá Tatarstan með langa herþjónustu að baki.
Auk pyntinga hefur hann verið sakaður um fjárkúgun á undirmönnum sínum og að hafa lifað við mikinn lúxus á víglínunni.
Morð
Sumir yfirmenn myrða hermenn sína annaðhvort af grimmd eða til að sýna vald, en algengasta hvatningin er peningar.
Eitt dæmi er Andrej Bykov, hermaður í 80. tankadeildinni.
Móðir hans sagði Verstka að yfirmenn hans, sem gengu undir nöfnunum „Dudka“ og „Kemer“, kröfðust helmings af bótum sem hann fékk vegna áverka.
Þegar hann neitaði og keypti sér bíl í staðinn, var hann barinn til dauða.
„Þeir sögðu að ekki blettur væri óbarinn á líkama hans,“ sagði móðir hans, Tatjana Bykova. „Hann liggur enn úti í skógi í Donetsk. Enginn rannsakar neitt. Ég get ekki einu sinni grafið hann.“
Kemer (Dmitrí Kemerov) og Dudka (Mikhail Dudukov) eru báðir fyrrverandi fangar. Verstka fann út að Kemerov hafi farið beint á vígvöllinn úr fangelsi þar sem hann afplánaði dóma fyrir svik.
Annar yfirmaður, Vjatseslav Kiselev, kallaður „Lis“, er sagður hafa barið leyniskyttu til dauða fyrir að neita að fara í árás og borga mútur.
Aftökur
Þeir sem neita að taka þátt í svokölluðum kjötárásum eru oft einfaldlega skotnir.
Hermenn lýstu því hvernig undirmenn væru teknir af lífi með skotum, drónum eða jafnvel handsprengjum földum í vesti þeirra.
Í sumum tilvikum eru drónar notaðir til að „klára þá sem snúa við“, annað hvort með sprengjum eða skotum úr lofti.
Hvernig morðin eru falin
Lík hinna „núllstilltu“ hermanna eru oft grafin í skóginum eða skilin eftir á vígvellinum. Skotið er yfir þeim nokkrum skotum til að láta líta út eins og þeir hafi fallið í bardaga.
Í skjölum eru þeir skráðir sem horfnir eða liðhlaupar, og fjölskyldur þeirra fá þá engar bætur.
Í sumum tilvikum eru hins vegar sviðsetningar ítarlegri.
Hermaðurinn Vladislav Berljakov lýsti því að félagi hans, Alexander Jurkov („Odessa“), hafi verið barinn til dauða eftir að hafa neitað að afhenda yfirmönnum sínum peninga.
„Þeir settu gamalt vesti og hjálm á hann, lögðu tvær handsprengjur undir líkið og sprengdu,“ sagði Berljakov.
„Svo skildu þeir hann eftir í hita í nokkra daga til að líkið rotnaði og merki um barsmíðar hyrfu. Síðan var hann sendur heim sem „fallinn í bardaga“.“
Rannsóknir og gagnagrunnar fjölmiðla
Um viku áður en Verstka birti rannsóknina sína birti miðillinn Vot Tak einnig gagnagrunn yfir rússneska yfirmenn sem sakaðir eru um glæpi gegn eigin hermönnum, alls 50 manns, margir þeirra einnig á listanum hjá Verstka.
 
                    
 
     
     
     
     
     
     
     
     
     
     
     
     
     
     
     
     
    
Komment