Sunnudagur 9. mars, 2025
3.8 C
Reykjavik

Óhóflegt vald lögreglu stofnar lýðræði Íslands í hættu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú stendur til að lagt verði fram nýtt frumvarp sem á að veita lögreglu víðtækari heimildir til endurheimtar ávinnings af afbrotum. Þó þessar breytingar séu ætlaðar til að auka skilvirkni og efla getu lögreglu í baráttunni gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þá eru þær ekkert annað en aðför að stjórnarskránni sem leggur ríka áherslu á að vernda mannréttindi, þar á meðal réttinn á friðhelgi einkalífs. Í Stjórnarskrá kemur skýrt fram:

  • 71. grein: Þar segir að allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Einnig er kveðið á um að ekki megi safna upplýsingum um einkalíf manna, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild.
  • 72. grein: Tryggir að eignarrétturinn sé friðhelgur og að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema samkvæmt lögum og gegn fullum bótum.

Í frumvarpinu er lagt til að lögreglan fái heimild til að óska eftir upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum án dómsúrskurðar. Slík heimild er mikið áhyggjuefni þar sem hún eykur verulega möguleika á því að lögreglan geti handahófskennt rannsakað fjármál einstaklinga án nokkurs eftirlits.

Sagan hefur sýnt að lögregluyfirvöld sem  hafa notið of mikils sjálfstæðis án gagnsæis og eftirlits eru mun líklegri til að misbeita valdi sínu. Þessar breytingar fara á svig við persónuverndarlög, þar sem þau leggja mikla áherslu á vernd einstaklinga gagnvart óréttmætri og ólögmætri vinnslu persónuupplýsinga.

Þá er áhugavert að skoða að í þessu frumvarpi er nýtt fyrirkomulag sem gerir ráð fyrir stofnun sérstakrar einingar hjá héraðssaksóknara til að endurheimta ávinning af afbrotum. Á prenti virkar þetta sem jákvætt skref en um leið vekur það spurningar um sjálfstæði og vald þessarar einingar, í ljósi þess að lögreglan hefur þegar sýnt merki um ofríki og spillingu.

Að auki vekja breytingar á ákvæðum sakamálalaga, sem auðvelda lögreglu að haldleggja eignir, alvarlegar áhyggjur. Með því að veita lögreglu slíkar heimildir án nægilegra varna gegn misnotkun skapast hætta á að borgarar geti orðið fyrir óréttlátum og jafnvel ólögmætum afskiptum af hálfu yfirvalda.

Það er óhætt að segja að slíkar lagabreytingar, sem auka vald lögreglu án þess að styrkja jafnframt eftirlit með beitingu þess valds, grefur undan grundvallaratriðum lýðræðisins. Í lýðræðisríki á lögreglan ekki að vera yfir lög hafin, heldur þvert á móti á hún að vera undir ströngu eftirliti til að tryggja að hún misnoti ekki vald sitt.

- Auglýsing -

Þetta frumvarp er ekki bara hættulegt það er stórhættulegt, þar sem það er teiknað upp með það í huga að veita lögreglu einræðislegt vald, sem opnar hlið af valdníðslu af verstu sort og umbreytir lögreglu í óhefta drottnara sem starfa án laga og réttar, þar sem mannréttindi verða af máð af vettugi lýðræðisins.

Ef þessar breytingar á löggjöfinni fara fram án þess að bætt sé úr núverandi vanköntum í eftirlitskerfinu, er hætta á að við sjáum aukna spillingu og valdníðslu lögreglu, sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni. Það er skylda stjórnvalda að tryggja að breytingar á lögum styrki réttarkerfið án þess að fórna grunnstoðum réttarríkisins.

Eins og þetta frumvarp horfir fyrir mér er þetta klár aðför að stjórnarskrá og lýðræði landsins, því tel ég nauðsynlegt að Alþingi og aðrir hlutdeildaraðilar í íslenskri stjórnsýslu beiti sér fyrir því að koma á skilvirkara sjálfstæðu eftirliti með lögreglu. Það er brýnt að slíkt eftirlit sé meðhöndlað af óháðum aðila sem hefur það hlutverk að gæta að hagsmunum almennings og standa vörð um borgaraleg réttindi gegn mögulegri misbeitingu lögregluvalds, „Stasi”.

- Auglýsing -

Ólafur Ágúst Hraundal
Höfundur er lífskúnstner

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -