Haldin verður sérstök kyrrðar- og bænastund í Heydalskirkju í kvöld vegna hins hræðilega bílslyss er varð í Berufirðinum í gærmorgun. Maður á áttræðisaldri lét lífið í slysinu og þrír slösuðust illa.

Fram kemur hjá Austurfrétt að lögreglan sé enn að rannsaka tildrög slyssins en tvær bifreiðar sem komu úr gagnstæðum áttum rákust harkalega saman um klukkan 11:30 í gær.
Ekki þurfti aðeins báðar þyrlur Landhelgisgæslunnar til að fljúga slösuðum til Reykjavíkur, heldur þurfti einnig að notast við tækjabíla til að komast að hinum slösuðu en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er enginn hinna slösuðu í lífshættu.
Kyrrðar- og bænastundin hefst klukkan 20:00 í kvöld en það verður beðið fyrir hinum slösuðu og fólk mun hugga hvort annað.