
Ágústa Ágústsdóttir, varaþingkona Miðflokksins, beinir hörðum orðum til Elds Smára Kristinssonar, formanns Samtakanna 22, í færslu á Facebook þar sem hún kallar eftir viðbrögðum innan flokksins vegna ummæla hans um transfólk.
„Þögn er sama og samþykki. Ég segi Nei! SLÖKKVUM ELDINN!“ skrifar Ágústa í upphafi færslu sinnar sem hún beinir til flokksfélaga sinna víða um land.
Ágústa segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með yfirlýsingu Elds Smára sem birtist eftir landsþing Miðflokksins í október. Hún segist undrandi á því að „samkynhneigður karlmaður sem sjálfur tilheyrir minnihlutahópi [...] finnur hjá sér svo mikla þörf [...] að ráðast sérstaklega gegn tilveru transfólks með því ótrúlega hatri sem hann einmitt er svo þekktur fyrir.“ Í færslunni kallar Eldur Smári transkonuna Önnu Margréti Grétarsdóttur, sem er einn af stofnmeðlimum Miðflokksins, „kvengervil“ og notar rangt persónufornafn á hana.

Hún fullyrðir að yfirlýsing Elds, þar sem hann skrifaði að „Íslensk stjórnmálasaga var skrifuð í kvöld. Miðflokkskonur neita að vera kallaðar sískonur,“ hafi verið til skammar og rangtúlkun á afstöðu flokkskvenna. „Ég verð nú að viðurkenna að þegar þessar heilu tvær konur í málefnahópnum fóru í þessa "sís" umræðu og urðu engum nema sjálfum sér til fullkominnar skammar með framkomu sinni og algerum skort á manngæsku og tillitsemi, kom ég allveg af fjöllum því það eina sem poppaði upp í hugann er ég reyndi að skilja þessa skammstöfun, var Samtök íslenskra samvinnufélaga!“
„Já þvílíka stjórnmálasagan sem þarna var skrifuð!“ bætir hún við kaldhæðnislega.
Þingkonan spyr hvort flokksmenn eigi að sætta sig við slíka framkomu. „Er þetta kjarni Miðflokksins? Ég veit að svo er ekki,“ segir hún og bendir á að „viljandi sé verið að vega persónulega að frábærri reynslumikilli konu [...] vegna þess eins að vera transkona.“
Ágústa gagnrýnir jafnframt orð Elds Smára um að hann hafi verið „djúpt snortinn“ af þökkum kvenna í flokknum sem töldu hann hafa valdeflt þær. „Það er nú gott og blessað að Eldur Smári sé djúpt snortinn, því hvernig má annað vera þegar nýjir litlir skósveinar birtast sem vilja tigna meistarann,“ skrifar hún.
Hún minnir á að Anna Margrét Grétarsdóttir hafi flutt „hugrakka þrumuræðu“ á landsþinginu og fengið „standandi lófaklapp og fögnuð nánast allra í salnum.“
Í lok færslunnar skorar Ágústa á forystu flokksins að bregðast við:
„Ætlum við að leyfa þessum eldi að brenna áfram óáreittum innan flokksins og breiða út mannhatur í nafni hans? Ætlar forystan að leyfa það? Er það málfrelsi? Þögn er sama og samþykki. Ég er stoltur Miðflokksfélagi og ég segi nei! SLÖKKVUM ELDINN!“
Í athugasemd við færslu Ágústu svaraði Eldur Smári gagnrýninni.
„Mér sýnist einmitt þetta innlegg í umræðuna sýna nákvæmlega það að þessa umræðu eigi að kæfa áður en hún fær að byrja,“ skrifar hann og ver orðanotkun sína.
„Ég kallaði karlinn vitaskuld kvengervil þar sem hann lifir í slíku kyngervi. Kyngervi er nota bene orð sem Samtökin '78 sömdu - ekki ég.“
Hann segir að ef fólki misbýði orðaval sitt, þá hafi Ágústa ekki gert athugasemdir við önnur hugtök sem notuð eru í umræðunni, líkt og „sís-konur, sís-hommi, sís-karl, hinsegin, leghafi, punghafi,“ eða „orðasambandið að úthluta kyni við fæðingu.“
Eldur segir jafnframt að færsla Ágústu geri „lítið úr því unga og frambærilega fólki sem hefur slegist í för með flokknum og lætur þessi mál sig varða.“
Að lokum skrifar hann: „Sannleikurinn er ekki hatur. Og eitruð samkennd og meðvirkni er heldur ekki kærleikur. Eigðu góðan dag.“
Komment