
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, gagnrýnir harðlega hugmyndir Donalds Trump um að skilgreina svokallað antifa sem hryðjuverkasamtök. Í færslu á Facebook bendir hún á að Antifa séu ekki til sem formleg samtök, heldur sé hugtakið aðeins notað sem lýsing á lauslegum hópi fólks sem sameinast í andstöðu sinni gegn fasisma.
„Það eru engin samtök til sem heita Antifa, það er bara lýsing á mjög óljósum hópi sem er fyrst og fremst sameinaður af því að vera and-fasistar,“ skrifar Alexandra. Hún segir hugtakið lengi hafa verið notað í Bandaríkjunum sem eins konar „Grýlu á hægri vængnum“ og kennt um allt sem miður fer.
Sjálf segist Alexandra vera and-fasisti. „Ég tel að fasismi sé sennilega hættulegasta og mannfjandsamlegasta stjórnmálastefna sem heimurinn hefur séð, sem og afbrigði hennar eins og nasismi, og mun berjast gegn því að fasismi komist til valda og áhrifa,“ segir hún.
Hún bendir á að nánast allir sem hafna fasisma geti verið skilgreindir sem antifa, óháð stjórnmálaskoðunum. „Það virkar um nýfrjálshyggjufólk, kommúnista, sjálfstæðismenn, anarkista, demókrata, græningja, pírata, sósíalista, sósíal demókrata – í raun bara langflesta á pólitíska rófinu,“ skrifar hún.
Að lokum segir Alexandra að með því að gera and-fasisma að helsta óvini sínum séu þeir sem berjast gegn antifa í raun að nálgast það að viðurkenna eigin tengsl við fasismann. „Þeir viðurkenna ekki ennþá að þeir séu fasistar, en það að kalla and-fasisma sinn höfuðóvin er nú eiginlega næsti bær við.“
Komment