
Samkvæmt dánarvottorði, sem TMZ hefur undir höndum, var leikkonan Sophie Nyweide þunguð þegar hún var úrskurðuð látin rétt fyrir klukkan fimm að morgni 14. apríl í Bennington í Vermont-ríki. Hún var aðeins 24 ára gömul.
Krufning hefur verið framkvæmd á líki Sophie, en enn liggur ekki fyrir nákvæm dánarorsök. Lögregla telur líklegt að hún hafi óvart tekið of stóran skammt af fíkniefnum.
TMZ ræddi við móður Sophie, Shelly, í gær. Hún sagði að hún hefði vitað að dóttir sín væri að nota vímuefni, og bætti við að Sophie hefði verið mjög smávaxin. Shelly sagði einnig að Sophie hefði verið í félagsskap annarra þegar hún lést, en hún þekkti þau ekki.
Lögregla hefur ekki útilokað refsivert athæfi í andláti Sophie en hún fannst við árfarveg og var úrskurðuð látin á vettvangi. Maður var með henni þegar hún lést, og hann hefur verið lögreglunni samvinnuþýður. Hann er þó ekki með réttarstöðu grunaðs í rannsókninni.
Shelly segir fjölskylduna syrgja. Hún segir að Sophie hafi elskað að leika og aldrei orðið fyrir skaðlegu áreiti á tökustað eins og margir barnaleikarar hafa orðið fyrir. Sophie lék í nokkrum kvikmyndum sem barn, þar á meðal Noah, Bella, Shadows & Lies, og í sjónvarpsþættinum Law & Order.
Faðir hennar lýsir henni sem „skapandi, íþróttaglaðri og viskuborinni langt um aldur fram,“ og að hún hafi ákveðið snemma að hún ætlaði sér að verða leikkona.
Komment