
Valur Gunnarsson, rithöfundur og sagnfræðingur segir margt líkt með stöðunni í Úkraínustríðinu og stöðunni í Evrópu rétt fyrir upphaf seinni heimstyrjöldina.
„Ætli Selenskí verði ekki látinn gefa eftir land í skiptum fyrir óljósar öryggistryggingar. Sem Pútín tekur ekki mark á og þá færumst við frá 1938 yfir í 1939.“ Þannig hljómar Facebook-færsla Vals Gunnarssonar en Mannlíf heyrði í honum og bað hann um að útskýra málið betur.
Í skriflegu svari lýsir sagnfræðingurinn því hvernig Bretar og Frakkar reyndu að koma í veg fyrir stríð árið 1938.
„Árið 1938 hittu Bretar og Frakkar Hitler og Mússólíni til að koma í veg fyrir stríð. Niðurstaðan varð sú að Hitler fékk Súdetahéruð Tékkóslóvakíu þar sem þýskumælandi fólk bjó en varnarvirkin voru öll. Á móti fengu Tékkar öryggistryggingar og Hitler lofaði að taka ekki meira.“
Valur segir að Hitler hafi hins vegar svikið loforðin í mars næsta ár á eftir.
„Í mars 1939 tók hann hins vegar yfir restina af Tékkóslóvakíu og fór að hóta Pólverjum. Nú fengu Bretar nóg og gáfu Pólverjum öryggistryggingar. Hitler tók ekki mark á þeim (hvers vegna að berjast fyrir Pólverja en ekki Tékka) og réðist inn. The rest is history.“
Aðspurður hvort hann væri svartsýnn á stöðuna í Úkraínu, í þessu ljósi, segir Valur að þetta sé að minnst kosti svartasta sviðsmyndin.
„Þetta er að minnsta kosti svartasta sviðsmyndin, að friðarsamningar á kostnað Úkraínu leiði til enn stærra stríðs. Þetta gæti gerst ef Úkraína fær öryggistryggingar sem Pútín tekur ekki mark á, hann svíkur samninginn og með því neyðast Evrópuríkin til að bregðast við. En auðvitað vonar maður það besta.“

Komment